Skúli Mogensen hefur nú stofnað félagið Títan Fasteign ehf. Tilgangur félagsins er kaup, sala og leiga fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur.

„Eins og nafnið gefur til kynna erum við að skoða fasteignir,” segir Skúli í viðtali við Viðskiptablaðið. Annað eignarhaldsfélag að nafni Títan er móðurfélag WOW air og er að fullu í eigu Skúla.

Spurður að því hvort hann hefði einhverjar sérstakar fasteignir í huga svaraði hann að til greina kæmi að finna höfuðstöðvar fyrir WOW air gegnum félagið. Skúli vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu eða nefna neinar tilteknar fasteignir.

Skúli er stofnandi og framkvæmdastjóri flugfélagsins WOW air, sem er nú til húsa við Katrínartún 12 í Reykjavík - en varnarþing og heimili Títan Fasteignar er einnig til húsa í Katrínartúni. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um skilaði WOW air 1,1 milljarðs króna hagnaði í fyrra. Tekjur félagsins á síðasta ári námu 17 milljörðum króna og jukust um 58% milli ára.