*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 7. nóvember 2017 08:27

Wow air mögulega á markað árið 2019

Þegar félagið nær því að hala inn milljarð Bandaríkjadala tekjur á ári íhugar Skúli að fara í hlutabréfaútboð.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Skúli Mogensen íhugar að setja Wow air á markað árið 2019, og mun hann skoða möguleika á frekari útvíkkun starfsemi fyrirtækisins á næsta árinu.

„Árið 2019 verðum við komin með um milljarð í tekjur, það er í Bandaríkjadölum. Svo að þegar við náum því verðum við komin í áhugaverða stærð til að fara á markað,“ segir Skúli í samtali við Reuters fréttastofuna.

„Til að halda vextinum áfram verðum við að skoða ýmsa möguleika, eins og að finna samstarfsaðila, fara á hlutabréfamarkað og svo framvegis. Við höfum ekki enn ákveðið hvaða leið við viljum fara.“

Skúli sagði að ýmsir mögulegir samstarfsaðilar hefðu þegar lýst yfir áhuga á að koma til liðs við félagið, en hann tók það fram að hann hygðist ekki selja félagið. Félagið stefnir nú að því að eignast lendingartíma flugfélagsins Monarch á Gatwick flugvelli, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá er félagið farið í gjaldþrotameðferð.

Fyrirtækið muni áfram einblína á að vaxa á mörkuðum Norður Ameríku, sem nú stendur undir um helmingi markaðar fyrirtækisins, þó fjórar nýjar vélar sem félagið leigir á næsta ári muni geta boðið upp á ferðir til Asíu.

Skúli býst við að aukatekjur muni á endanum fara fram yfir 60 Bandaríkjadali á hvern farþega, sem myndi vega upp litlar tekjur af farþegum á flugleiðum yfir Atlantshafið. „Ef þú ert tilbúinn að vera örlítið sveigjanlegur, þá er 99 dalir á fargjaldið nýja venjulega verðið. Allir í iðnaðinum eru að verða snjallari en þeir sem geta það ekki munu einfaldlega fara á hausinn.“