Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sé ástæða fyrir því að flugfélagið hafi bætt við sig langdrægnari vélum. Wow air tilkynnti um daginn að flugfélagið komi til með að bæta við sig sjö nýjum Airbus flugvélum við ört vaxandi flota flugfélagsins. Floti félagsins mun því telja 24 flugvélar í lok mars.

Langdrægni fjögurra glænýrra Airbus A330-900neo véla, sem Wow air leigir til tólf ára, er 9.750 kílómetrar og kom fram í tilkynningu félagsins að þær gætu flogið til Hong Kong eða Honolulu frá Keflavíkurflugvelli.

Skúli segir það ekki tilvjun háð að félagið sé að bæta við sig vélum sem eru bæði langdrægnari og sparsamari. „Við erum að skoða fjarlægari markaði. Meira get ég ekki sagt í bili,“ segir Skúli, sem vísar þó til þess að mesta aukningin sé á komu Kínverja til landsins.

Í nýlegri grein Viðskiptablaðsins kemur meðal annars fram að Kína sem og aðrar Asíuþjóðir eru sífellt stærri hluti af þeim ferðamönnum sem koma til landsins. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu tvöfaldaðist fjöldi kínverskra ferðamanna hér á landi í janúar milli ára.

Stærstu þotur sem flogið hafa í áætlunarflugi

Þoturnar sem að Wow air bætti við sig eru að sögn Skúla þær stærstu sem flogið hefur verið í áætlunarflugi til og frá Íslandi. „Við erum þarna með 365 sæti, þar af eru 42 stór sæti. Við erum mjög spennt fyrir því líka, að geta boðið upp á fjölbreyttara vöruúrval fyrir okkar farþega.

Einnig ítrekar Skúli að Ísland geti hæglega tekið á móti mun fleiri ferðamönnum, með því að skipuleggja okkur betur og stýra ferðum þeirra betur. „Ég var að koma af Snæfellsnesi og Húsafelli og þar voru svo til engir ferðamenn þar á ferðinni. Það er upp undir okkur komið að stýra umferðinni betur,“ bætir hann við.

Wow air á hælunum á Icelandair

Í ársskýrslu Icelandair Group fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir að fjöldi farþega verði 4 milljónir, farþegar félagsins voru 3,7 milljónir í fyrra sem er aukning um 300 þúsund frá árinu 2017.

Í fyrra hélt Skúli Mogensen erindi á ráðstefnu Íslenska sjávarklasans, Flutningalandið Íslands. Þá kom fram í máli hans að flugfélagið gerði ráð fyrir því að á þessu ári verði farþegafjöldi félagsins verði þrjár milljónir. Þar sagði Skúli að hann geti staðfest að sú spá myndi ganga eftir.