Flugfélagið Wow air hefur tekið á leigu tvær Airbus A320-flugvélar til sex ára. Vélarnar voru áður í umsjá búlgarska flugfélagsins Air Via sem sinnt hefur flugi fyrir hönd Wow air undanfarin ár.

Áður voru vélarnar skráðar í Búlgaríu en hafa nú verið skráðar hér á landi undir nöfnunum TF-BRO og TF-SIS. Hefur Wow air því fjórar flugvélar á sínu flugrekstrarleyfi, en vélarnar TF-MOM og TF-DAD, flugvélar af gerðinni Airbus A321, bættust í flota félagsins síðasta vor.

Báðar flugvélarnar voru framleiddar árið 2010 og er meðalaldur flugflota Wow air nú 4,7 ár, en TF-MOM og TF-DAD voru keyptar splunkunýjar til flugfélagsins.