*

fimmtudagur, 13. desember 2018
Innlent 8. janúar 2018 14:20

Wow býður fjórða valkostinn

Nýr valkostur hjá WOW air, WOW comfy, inniheldur innritaða ferðatösku, forfallavernd og aukið sætabil.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

WOW air býður upp á nýjan valkost fyrir farþega sína. Nú verður hægt að velja um fjórar leiðir í stað þeirra þriggja sem áður voru í boði. Nýi valkosturinn sem hægt er að velja þegar bókað er flug hjá félaginu heitir WOW comfy en í honum er innifalinn flugmiði, lítið veski, innrituð taska, handfarangur, forfallavernd og sæti með XL eða XXL sætabili. 

Sala á þessari nýju þjónustu mun hefjast á næstu dögum segir í tilkynningu frá félaginu. „Á síðasta ári kynntum við til leiks tvær nýjar þjónustuleiðir; WOW plus og WOW biz og fengu þær frábærar viðtökur frá farþegum okkar,“ segir Engilbert Hafsteinsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. 

„Með auknum farþegafjölda og ólíkum viðskiptavinum með ólíkar þarfir sjáum við tækifæri að þróa þjónustu okkar enn frekar og bæta við fjórða valkostinum fyrir farþega okkar. Á þann hátt geta farþegar valið þá leið sem hentar þeim best hverju sinni.“

Í bókunarkerfi WOW air verður nú hægt að velja um fjórar mismunandi leiðir:

  • WOW basic

innifalið í verði er fargjald og lítið veski (t.d. lítill bakpoki, veski eða fartölvutaska).

  • WOW plus

innifalið í verði er fargjald, lítið veski, handfarangur 12 kg, innritaður farangur 20 kg og val á almennu sæti. 

  • WOW comfy

innifalið í verði er flugmiði, lítið veski, handfarangur 12 kg, innritaður farangur 20 kg, forfallavernd og sæti með XL eða XXL sætabili.

  • WOW biz

innifalið í verði er fargjald, lítið veski, handfarangur 12 kg, innritaður farangur 20 kg, forfallavernd, breiðara sæti með meira sætabil (Big seat eða besta sæti í boði), hraðferð í öryggisleit á Keflavíkurflugvelli, forgangur um borð, máltíð og drykkur.