Eigandi British Airways, félagið IAG, hefur tryggt sér brottfarar- og lendingartíma hins gjaldþrota félags Monarch á Gatwich flugvelli. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun mánaðarins sagði Skúli Mogensen eigandi Wow air að hann hefði áhuga á tímunum, en nú er ljóst að hann hefur ekki haft erindi sem erfiði.

Í síðustu viku fékk KPMG, sem sér um skiptin á búinu, úrskurð dómstóla á því að þrotabúið hefði rétt á að selja tíma Monarch á flugvellinum, en lögfræðingar félagsins höfðu sagt tímana verðmætustu eign félagsins.

IAG segist fyrst og fremst ætla að nota tímana fyrir langflug British Airways, en félagið á einnig flugfélögin Vueling og Aer Lingus,en lággjaldaflugfélögin EasyJet, Wizz og Norwegian höfðu einnig áhuga á að eignast tímana að því er BBC segir frá.

Einnig verður uppboð á brottfarar- og lendingartímum Monarch á Luton flugvelli, en samanlagt eru tímarnir á báðum flugvöllunum taldir að verðmæti um 60 milljóna breskra punda, eða sem samsvarar tæpum 8,3 milljörðum íslenskra króna.