Wow air hefur boðað til blaðamannafundar á Oberoi hótelinu í Nýju-Delí á Indlandi þriðjudaginn 15. maí. Búist er við að Wow kynni þá upphaf áætlunarflugs milli Íslands og Indlands og miðað við staðsetningu fundarins er líklegt að fyrsti áfangastaðurinn verði Nýja-Delí. Túristi og Air Transport World greina frá þessu.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í apríl stefnir Wow air á að fljúga til allt að 15 áfangastaða í Asíu á næstu árum. Indland hefur verið í umræðunni um nokkra hríð sem fyrsti áfangastaður Wow air í Suður- og Suðaustur-Asíu, en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því að Wow air ætti í viðræðum við hugsanlega samstarfsaðila í Nýju-Delí.

Þá greindi Icelandair frá því á uppgjörsfundi í síðustu viku að horft væri til þess að hefja áætlunarflug til Indlands haustið 2019.