*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 23. apríl 2018 16:23

Wow leitar að ferðalöngum

Wow auglýsir nú eftir sumarstarfsfólki sem hefur það verkefni að flytja til Íslands og ferðast um heiminn.

Ritstjórn
Skúli Mogensen, forstjóri Wow.
Haraldur Guðjónsson

„Það er opið fyrir umsóknir í þriggja mánaða sumarstarf, þar sem þú munt flytja til Íslands og ferðast um heiminn með besta vini þínum,“ segir í auglýsingu WOW air um nýja sumarstöðu sem fyrirtækið hyggst setja á laggirnar. Þeim mun því verða borgað fyrir að búa á Íslandi og ferðast um heiminn.

Umræddum einstaklingum er ætlað að búa til rafræna ferðahandbók (e. travel guide) fyrir alla 38 áfangastaði Wow. 

Í starfslýsingunni segir að starfsmennirnir muni ferðast um heiminn, kynnast menningu, matarvenjum, skemmtanalífi og náttúru fjölda áfangastaða. Þeim er ætlað að búa til myndbandsfærslur af stöðunum og birta myndir á samfélagsmiðlum til þess að kynna þá. 

Wow mun aðeins taka við umsóknum á myndbandsformi og umsækjendur eiga að búa til rafræna ferðahandbók um eigin borg. Umsóknarfrestur er til 14 maí en verkefnið hefst þann 1. júní.