Samkvæmt frétt Morgunblaðsins nú í morgun skuldar WOW air Isavia um tvo milljarða króna í ógreidd lendingargjöld, sem hafi ekki verið greidd síðan í vor.

Isavia tjáir sig ekki um málefni einstakra viðskiptavina, og ekki liggur ljóst fyrir hvernig staðið verði að innheimtu skuldarinnar, en almennt segist Isavia „vinna með viðkomandi félögum að lausn mála ef upp koma tilvik þar sem vanskil verða á lendingargjöldum með hagsmuni Isavia að leiðarljósi.“

Heimildir Morgunblaðsins herma ennfremur að WOW og Isavia vinni nú að útfærslu á uppgreiðslu skuldarinnar.

Þá er haft eftir Boga Nils Bogasyni , starf­andi for­stjóra Icelanda­ir Group, að ef rétt reynist sé það illskiljanlegt að opinbert hlutafélag eins og Isavia „taki þátt í að fjármagna taprekstur“ WOW, og skekki þar með samkeppnisstöðu á markaðnum.

Flugfélagið sendi frá sér tilkynningu í gær þess efnis að skuldabréfaútboði félagsins myndi ljúka á þriðjudaginn næstkomandi, og að „nú þegar lægi fyrir“ að útgáfan næði því lágmarki sem lagt var upp með, 50 milljónum evra, eða um 5,5 milljörðum króna.

Túristi segir einnig frá því að Ben Baldanza, sérfræðingur í flugrekstri sem tók sæti í stjórn WOW air í mars 2016, hafi hætt í stjórn WOW fyrir mánuði þegar hann tók sæti í stjórn skráða flugfélagsins JetBlue Airways í Boston.

Baldanza er þó enn skráður sem stjórnarmaður á heimasíðu WOW air, auk þess sem hann er kynntur sem stjórnarmaður í útboðsgögnum ofangreinds skuldabréfaútboðs, en hann segist vera meðvitaður um það.

Þrátt fyrir að sitja ekki í stjórn er Baldanza þó ekki alfarið hættur störfum fyrir WOW, en hann situr að eigin sögn ennþá fundi flugfélagsins og veitir því ráðgjöf.