WOW air hefur skrifað undir samning þess efnis að selja fjórar Airbus flugvélar til Air Canada. Sjóðstaða WOW air mun batna um 12 milljónir Bandaríkjadala með þessari sölu. Stjórn WOW air hefur samþykkt þessi viðskipti en þessi sala er hluti af endurskipulagningu félagsins en legið hefur fyrir að minnka þurfi flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðarsveiflu og hámarka arðsemi. Um er að ræða Airbus A321 vélar sem WOW air hefur verið með á kaupleigu frá 2014. Vélarnar verða afhentar í janúar 2019.

„Þetta er mjög jákvætt og mikilvægt skref í endurskipulagningu WOW air þar sem við bæði minnkum flotann og bætum lausafjárstöðu félagsins með sölu á þessum flugvélum,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air. Wow air hyggst fækka í flugvélaflota sínum úr 20 vélum í 11.

Í gær tilkynnti Wow air að það hefði selt lendingartíma sína á Gatwick flugvelli við London og hygðist þess í stað hefja Lundúnarflug til og frá Stansted. Wow air á í viðræðum við Indigo Partners um 75 milljón dollara fjárfestingu í félagi gangi áreiðanleikakönnun og aðrir fyrirvarar eftir. Meðal annars eiga skuldabréfaeigendur Wow air eftir að fallast á skilmálabreytingar á skuldabréfum sínum. Breytingarnar felast meðal annars í að lengja í skuldabréfunum og falla frá rétti til að eignast hluti í Wow við skráningu á markað.