Hagnaður flugfélagsins WOW air á fyrsta ársfjórðungi 2016 nema 400 milljónum króna. Á sama tíma árið 2015 var félagið rekið í 280 milljóna króna tapi. Sætanýting á fyrstu þremur mánuðunum var 88%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Tekjur fyrirtækisins á tímabilinu voru þá 4 milljarðar króna og eru 141% meiri en á sama tíma árinu áður þegar tekjur félagsins voru 1,7 milljarður króna.  EBIDTA félagsis á tímabilinu nam þá 680 milljónum króna og er milljarði króna meiri en á sama tíma árið 2015.

Flugfélagið hefur flutt 193 þúsund farþega á tímabilinu, en það er aukning um 119% milli ára. Í tilkynningu fyrirtækisins segir þá einnig að framboðnum sætiskílómetrum hafi fjölgað um 164% á milli ára, sem sé mesta aukning WOW frá stofnun félagsins.

Í tilkynningunni er haft eftir Skúla Mogensen, stofnanda og forstjóra félagsins, að fyrirtækið sé ánægt með árangur ársfjórðungsins. Þá hafi Norður-Ameríkuflug félagsins fengið góðar móttökur viðskiptavina og að nýting hafi verið góð yfir vetrarmánuðina.