Wow air stefnir að því vera með tíu prósent hlutdeild á flugi á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Árlega fljúga um 60 milljónir farþega yfir Atlantshafið og því virðist stefnan hjá Wow air vera sú að fljúga með sex milljónir farþega. Þetta kom fram í ræðu sem Daníel Snæbjörnsson, forstöðumaður leiðakerfis Wow air, hélt á Route Europe ráðstefnunni sem fer fram í Belfast, frá þessu er greint í frétt Routes Online og í frétt Túrista.is.

Ef allt gengur eftir hjá flugfélaginu verður það orðið talsvert umsvifameira en Icelandair yfir Atlantshafið. En hlutdeild Icelandair á þeim markaði er um tvö prósent. Í fyrra nam fjöldi skiptiferða hjá Icelandair nærri tveimur milljónum. Daníel sagði enn fremur að flugáætlun Wow air næsta vetur yrði 30 til 40 prósent umsvifameiri en í ár.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016 flugu þrefalt fleiri farþegar með Icelandair heldur en Wow air. Staðan hefur gjörbreyst og bilið á milli flugfélaganna tveggja hefur minnkað umtalsvert. Bilið á milli Icelandair og Wow air á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er einungis 22 prósent að því er kemur fram í frétt Túrista.