Það eru um tíu ár síðan Steve Jobs heitinn kynnti iPhone fyrst til sögunnar og það er óhætt að segja að hann hafi valdið straumhvörfum. Sennilega er ekkert tæki vorra daga, sem hefur haft jafnmikil áhrif, því með tilkomu snjallsímans er komin öflug tölva og fjarskiptatæki í hvers manns vasa.

Því var það nokkuð tilfinningarík stund á þriðjudag, þegar Tim Cook, arftaki Jobs á forstjórastóli Apple, hóf kynninguna í glænýjum sýningarskála, kenndum við Jobs, í hinum nýju höfuðstöðvum Apple. Hann minntist vinar síns og hugsjónar hans um markmið tæknirisans, sem segja má að kristallist í iPhone.

Fyrir kynninguna hafði ótal margt lekið út um hina nýju síma og aðrar tækninýjungar, sem Apple myndi afhjúpa þar í Cupertino í Kaliforníu, í hjarta Kísildals. Heildarmyndin varð samt ekki ljós fyrr en þar og þá.

Áhætta Apple

Þó að sitthvað fleira væri kynnt blandaðist engum hugur um að þar væri iPhone í aðalhlutverki. Og ekki skrýtið, iPhone er langvinsælasta vara fyrirtækisins og stendur undir ⅔ af tekjum Apple þessi árin. Að þessu sinni voru kynntir þrír nýir símar, tveir hefðbundnir í tveimur stærðum, iPhone 8 og iPhone 8 Plus, og svo nýr ofursími, iPhone X, sem jafnframt verður á ofurverði.

Þar er Apple að taka þrefalda áhættu að margra mati. Í fyrsta lagi sé verið að flækja vörulínuna. Í öðru lagi sé verið að reyna mjög á þolrif neytenda sem fyndist iPhone ekki ódýr fyrir. Í þriðja lagi sé verið að reyna nýja tækni, sem sé á mörkum þess að vera tilbúin og muni reynast Apple mikill álitshnekkir valdi hún vonbrigðum.

Á móti má segja að áhætta Apple sé mun minni en kunni að virðast á yfirborðinu. Í fyrsta lagi sé vörulínan ekki flókin með tvær stærðir fyrir almenna neytendur og eina fyrir hina kröfuharðari. Í öðru lagi bendir margt til þess að til sé tryggur hópur aðdáenda Apple og iPhone, sem setji hátt verð ekki fyrir sig. Apple framleiðir merkjavöru, sem Apple á að notfæra sér í auknum mæli (ekki gleyma að smásölustjóri Apple kom frá Burberry). En fari svo að salan á iPhone X verði dræm, þá mun það sennilega skila sér lóðbeint í aukinni sölu iPhone 8. Í þriðja lagi þarf fyrirtæki á borð við Apple að halda sér á hinni blæðandi egg tækniframfara vilji það halda forystu sinni. Það væri hins vegar óvarlegt að veðja öllu á það, svo skiptingin milli iPhone 8 og iPhone X er sennilega afar skynsamleg.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .