Janet Yellen fráfarandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna stýrir sínum síðasta fundi í vikunni. Hún hefur starfað í 14 ár hjá seðlabankanum þar af síðustu fjögur sem fyrsti kvenkyns seðlabankastjóri bankans.

Á vef The Wall Street Journal segir að í tíð Yellen haft bankinn viðhaft töluverðan slaka í peningastefnunni sem meðal annars hafi leitt til minnkandi atvinnuleysis. Eftirspurn eftir vinnuafli hefur ekki verið meira vestanhafs í nær tvo áratugi.

Yellen tók við af Ben Bernanke sem setti gríðarlegan peningalegan slaka af stað í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Yellen sem þykir einn helsti sérfræðingur á sviði vinnumarkaðshagfræði hvatti til þess að staða vinnumarkaðarins yrði veitt meiri athygli við vaxtaákvarðanir seðlabankans. Hennar sjónarmið urðu ofan á og hún stýrði vaxtaákvörðunum bankans þannig að dregið hefur verið mjög hægt úr slaka peningastefnunnar.

Arfleið hennar er þó aðeins að hluta skrifuð því eftir á að koma í ljós hvort bankinn geti hækkað vexti nógu hratt til þess að lágt vaxtastig leiði til eignabólu en slík bóla gæti endurtekið atburði ársins 2008.

Búist er við því að á síðasta fundi Yellen ákveði bankinn að halda sama vaxtasigi eða 1,25-1,5% á skammtímavöxtum.

Jerome Powell, sem hefur átt sæti í peningastefnunefnd seðlabankans mun taka við af Yellen.