Frá efnahagshruni hafa stóru viðskiptabankarnir þrír - Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki - greitt að minnsta kosti 325 milljarða til ríkissjóðs í formi arðs og skatta.

Frá árinu 2013, þegar bankarnir greiddu fyrst út arð eftir hrun, hafa bankarnir greitt um 191 milljarð í arð til hluthafa. Þar af hafa rúmlega 156 milljarðar runnið í ríkissjóð. Með sölu íslenska ríkisins á 13% hlut í Arion banka er ríkið eigandi að 64,7% hlut í bókfærðu eigin fé stóru bankanna þriggja. Þar af á ríkið 98,2% hlut í Landsbankaknum og Íslandsbanka að fullu.

Stóru bankarnir þrír greiddu tæplega 35 milljarða króna í arð til hluthafa á síðasta ári. Útlit er fyrir að eilítið hærri upphæð verði greidd í arð í ár.

Alls greiddu bankarnir 9,3 milljarða króna í sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, svokallaðan bankaskatt, á síðasta ári. Skatturinn, sem nemur 0,376% af skuldum bankanna, var lagður á árið 2010 til þess að afla tekna vegna kostnaðar sem hlaust af fjármálakreppunni og draga úr áhættusækni innlánsstofnana.

Frá því að bankaskatturinn var tekinn upp hafa bankarnir greitt tæplega 50 milljarða til ríkissjóðs. Á sama tímabili hafa bankarnir greitt rúmlega 121 milljarð í tekjuskatt. Þá hafa bankarnir greitt milljarða í ríkissjóð til viðbótar í tryggingagjald og fjársýsluskatt.

Undanfarinn áratug hafa innlend fjármálafyrirtæki greitt alls 321 milljarða króna í opinber gjöld.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .