Lánasjóður íslenskra námsmanna átti 171 milljarð króna í útlán í lok síðasta árs, þegar tekið hefur verið tillit til áætlaðara afskrifta. Sjóðurinn hafði 1,7 milljarða í vaxtatekjur en greiddi 3,5 milljarða í vaxtagjöld. Skuldir sjóðsins eru aðallega lán frá ríkissjóði, en einnig áfallnir vextir. Þetta kemur fram í ársskýrslu sjóðsins sem birt var í dag.

Í ársskýrslunni er eðli útlánasafns sjóðsins útskýrt nokkuð nákvæmlega. Á meðal þess sem kemur fram er að eftir því sem einstaklingar taka hærri námslán fá þeir sífellt hærri hluta heildarlánsins í formi ríkisstyrks.

Vaxtaafsláttur og afföll

LÍN veitir lægri vexti á námslánum heldur en gengur og gerist á lánsfjármarkaði. Í ársskýrslunni er bent á að þessi vaxtamunur er óbeinn ríkisstyrkur. Fyrirgreiðsla frá LÍN, sem er á bilinu 0-2,5 milljónir króna, eru að mestu leyti í formi lána á markaðskjörum. Vaxtaafsláttur af lánum á því fjárhæðarbili nemur um 15% af upphæð lánanna.

Staðan breytist hins vegar hratt eftir því sem fjárhæð lána eykst. Nokkur prósent af útistandandi LÍN-lánum á bilinu 5-7,5 milljónir króna eru í formi beins ríkisstyrks til lánþega. Vaxtaafsláttur nemur síðan tæpum 20% af upphæð lána á því fjárhæðarbili. Núvirði þessara lána er aðeins um 70% af samanlagðri lánsupphæð.

Núvirði námslána yfir 20 milljónum króna er undir 20% af upphæð lánanna, miðað við forsendur LÍN. Vaxtaafsláttur slíkra lána nemur um 10% af lánsupphæðinni. Um 70% lána yfir 20 milljónum króna eru beinn afsláttur, sem lánþegar munu aldrei þurfa að greiða til baka miðað við áætlanir LÍN.