Bílaframleiðandinn General Motors (GM) á yfir höfði sér risasekt vegna galla í kveikjukerfi bíla sem GM framleiddi. Bandaríska dagblaðið The Washington Post greinir frá því að GM verði líklega sektað um meira en einn milljarð dollara eða um 135 milljarða íslenskra króna. Jafnvel er talið að sektin geti orðið hærri en sekt sem Toyota fékk í fyrra. Þá var japanski bílaframleiðandinn sektaður um 1,2 milljarða dollara eða 160 milljarða króna, vegna öryggisgalla.

Talið er rekja megi dauða um 100 ökumanna til þessa galla í kveikjukerfi bíla GM. Það sem hefur þá gerst er að svissinn eða kveikjulásinn hefur færst til og klippt á rafmagn til öryggispúða, vökvastýris og bremsubúnaðar (e. power brakes) bílanna. Talið er að þessi galli hafi verið í sumum bílum framleiðandans í allt að áratug. Auk þess að eiga yfir höfði sér sekt er talið líklegt að fyrirtækið verði ákært.