BYKO hefur birt yfirlýsingu í kjölfar ákvörðunar áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem sekt sem félaginu var gert að greiða var lækkuð úr 650 milljónum í 65 milljónir króna, en greint var frá málinu á vb.is í gær.

BYKO telur niðurstöðuna viðurkenningu á því að samkeppniseftirlitið hafi farið offari i þessu máli.

Forsaga málsins er rakin í yfirlýsingunni en þar segir að þann 15 maí sl. hafi eftirlitið tilkynnt um sektarákvörðun sína og opnað á sama tíma upplýsingasíðu um „ólögmætt samráð á byggingavörumarkaði“. Sú niðurstaða eftirlitsins hafi verið andstæð niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms frá sama vori, þar sem 11 af 12 sakborningum voru sýknaðir.

Að lokum segist BYKO að það hafi frá upphafi haldið fram sakleysi sínu gagnvar hvers kyns ásökunum um ólögmætt verðsamráð og að það muni leita allra leiða til að fá afstöðu sína staðfesta.