Borgun hefur gefið út tilkynningu vegna sölu á hlut Landsbankans í fyrirtækinu.

Borgun segir að Landsbankinn hafi haft aðgang að öllum gögnum í tengslum við söluna á hlut bankans í Borgun síðla árs 2014. Sérstakt gagnaherbergi hafi verið útbúið þar sem Landsbankinn, og aðrir aðilar málsins, höfðu fullan aðgang að ítarlegum upplýsingum um Borgun og rekstur félagsins. Þar lágu fyrir upplýsingar um aðild og eignarhlut Borgunar í Visa Europe sem og upplýsingar um valréttarákvæði milli Visa Inc. og VISA Europe.

Borgun segir að fyrirtækið hafi aldrei búið yfir upplýsingum um hvort Visa Europe yrði selt, né heldur hvenær eða á hvaða verði, fyrr en salan var gerð opinber í byrjun nóvember 2015. Vænt hlutdeild Borgunar í söluandvirði á VISA Europe varð ekki ljós fyrr en 21. desember sama ár. Fyrir þann tíma hafði Borgun engar forsendur til þess að meta eignarhlut sinn í Visa Europe á annan hátt en gert var.

Borgun segir einnig að fyrirtækið muni veita Landsbankanum allar þær upplýsingar tengdar söluferli, sem nauðsynlegar eru vegna fyrirspurna Bankasýslu ríkisins og annarra opinberra aðila.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um Borgunarmálið - meðal annars var mótmælt í Landsbankanum vegna sölu kortafyrirtækisins, auk þess sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur tjáð sig um að honum finnist að rannsaka ætti tildrög sölunnar.