Yfirmaður hjá Icelandair sem hefur verið kærður fyrir innherjasvik til Embættis héraðssaksóknara, var í slagtogi með að minnsta kosti þremur einstaklingum, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í morgun .

Einn af mönnunum þremur hlaut nýverið fangelsisdóm í Hæstarétti fyrir peningaþvætti, fíkniefnabrot og rekstur á spilavíti. Rannsókn héraðssaksóknara snýr að viðskiptum með hlutabréf Icelandair Group sem gerð voru í nafni félags í hans eigu. Mennirnir þrír hafa allir verið yfirheyrðir.

Heimildir Fréttablaðsins herma að á meðal sönnunargagna séu tölvupóstsamskipti sem hinn grunaði yfirmaður sendi til meintra samverkamanna. Rannsóknin beinist að framvirkum samningi sem var gerður rétt áður en Icelandair Group sendi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar í byrjun febrúar þar sem afkomuspá félagsins var lækkuð og bréf félagsins hrundu.

Yfirmaðurinn átt í árslok 2016 hlutabréf í Icelandair Group í eigin nafni að virði ríflega níu milljónum króna. Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara er rannsókn málsins vel á komin. Þó er óljóst hvenær málinu líkur. Er þetta í fyrsta skiptið frá falli fjármálakerfisins sem að héraðssaksóknari rannsakar mál er varðar meint brot í viðskiptum með bréf í skráðu félagi.