Þýska efnaiðnaðarfyrirtækið Bayer hefur staðfest 66 milljarða dala metyfirtöku sína á útsæðisframleiðslufyrirtækinu Monsanto.

Við samrunann yrði til stærsta fyrirtæki í heimi í framleiðslu útsæðis og skordýraeiturs, með um 25% markaðshlutdeild í heiminum.

Greiða 45% álag

Bayer eignast fyrirtækið fyrir 128 Bandaríkjadali á hlut, sem er aðeins lægra en fréttir bárust um í morgun að væri á döfinni. Þetta hefur verið samþykkt af stjórnum beggja fyrirtækja.

„Klárlega mun Bayer ná fram sparnaði frá yfirtökunni, en þeir hafa þurft að greiða gríðarlega hátt verð fyrir fyrirtækið, eða 45% hærra en hlutabréfaverðið var áður en samningaviðræðurnar hófust,“ sagði prófessor John Colley í Warwick Business School um samrunann.

Samrunar knúnir áfram af lækkandi afurðaverði

Helstu keppinautar fyrirtækjanna, Dow Chemicals, DuPont og Syngeta hafa öll tilkynnt um samruna og yfirtökur nýlega samfara lækkandi heimsmarkaðsverði á afurðum, þó samkeppnisyfirvöld eigi eftir að samþykkja einhverja þeirra.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að með samrunanum sé verið að sameina tvö mjög mismunandi fyrirtæki sem bæti hvort annað upp, þar sem viðskiptavinir muni hafa aðgang að fjölbreyttu úrvali af útsæði og skordýraeitri víðast hvar í heiminum.

Fjárfest í rannsóknum, gagnrýnt fyrir erfðabætingar

Jafnframt muni hið sameinaða fyrirtæki fjárfesta 2,5 milljörðum árlega í rannsóknir og þróun sem fyrirtækið vonast til þess að leiti til betri lausna fyrir náttúruna, landbúnað og þörfina til að fæða mannkynið sem þeir segja muni fjölga um þrjá milljarða fyrir 2050.

Monsanto er einna þekktast fyrir að framleiða útsæði sem hefur verið verið erfðabreytt til að reyna að gera það fljótvaxnara, stærra og harðgerðara gegn skordýraplágum, svo minna þurfi af skordýraeitri. Notkun erfðabreytts útsæðis er algeng í Bandaríkjunum, en mikil mótmæli hafa verið gegn notkun þess í Evrópu.

Ef samkeppnisyfirvöld munu ekki samþykkja samrunann hefur Bayer skuldbundið sig til 2 milljarða dala greiðslu til Monsanto.