„Ef ég væri að vinna í fullu starfi sem verkfræðingur þá væri þetta miklu erfiðara,“ segir rithöfundurinn og verkfræðingurinn Yrsa Sigurðardóttir. Hún var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 á RÚV í morgun. Þar kom fram að Yrsa er ekki lengur í fullu starfi sem verkfræðingur heldur í 70-80% starfi.

Nýjasta bók Yrsu, Lygi, er nýkomin út. Þetta er níunda bók hennar á jafn mörgum árum.

Spurð út í muninn á störfunum, þ.e. starfi sínu sem verkfræðingur og sem rithöfundur, sagði Yrsa að verkfræðistarfið væri öðruvísi. Meiri festa sé í því auk þess sem hún vinni með öðrum. Skrifin séu öðruvísi. Stundum elski hún það starf en hati það aðra stundina.

Fram kom í viðtalinu að Yrsa setur söguþráð bóka sinna upp í Excel til að skipuleggja skrifin betur. Hún sagðist hins vegar alltaf stefna að því að byrja að skrifa ár hvert í janúar en dragi það fram í mars. Næstu bók ætlar hún að byrja að skrifa í desember.