Ein vinsælasta hljómsveit allra tíma, Led Zeppelin, á yfir höfði sér málaferli vegna eins þekktasta lags þeirra Stairway to Heaven.

BBC greinir frá því að málið er höfðað vegna þess að Zeppelin er sakað um að hafa stolið hluta af laginu frá gítarleikara sem hét Randy California og er látinn. Lögmenn sem sækja málið vilja að hann njóti heiðurs sem einn höfunda lagsins sem samið var árið 1971.

Bloomberg Businessweek segir að tekjur af laginu hafi árið 2008 verið komnar upp í 562 milljónir dollara. Það jafngildir 63 milljörðum íslenskra króna. Ein ástæða þess að tekjurnar eru svona háar sé sú að lagið hafi aldrei verð gefið út eitt og sér á plötu. Fólk hafi því þurft að kaupa plötuna, sem var fjórða breiðskífa Led Zeppelin og bar rómversku tölustafina IV.

Hvorki þremenningarnir sem eru á lífi úr Led Zeppelin né hljómplötuútgefandinn Warner Music hafa tjáð sig um ásakanirnar.

Hér á neðan má hlusta á lagið fræga.