Lögbundið hámark fasteignaskatts, sem sveitarfélög leggja á atvinnuhúsnæði, er 1,65% af fasteignamati. Það þýðir að fyrirtæki sem á fasteign sem metin er á 100 milljónir króna greiðir 1.650 þúsund krónur á ári í fasteignagjöld. Fasteignagjöldin geta því verið umtalsverður hluti rekstrarkostnaðar hjá minni fyrirtækjum.

Meirihluti sveitarfélaga á Íslandi innheimtir hámarksprósentuna. Fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði á Íslandi árið 2015 voru rétt tæpir 17 milljarðar króna. Í síðustu viku var sagt frá nýju fasteignamati fyrir árið 2017. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 7,6% á landinu en 9,1% á höfuðborgarsvæðinu. Að óbreyttu þýðir þetta um 1,3 milljarða króna í aukna skatta á atvinnulífið.

40% hækkun á fimm árum

Á síðastliðnum fimm árum hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu hækkað um tæplega 36% að meðaltali. Á höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um 40%. Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu eru það eingöngu Kópavogur og Seltjarnarnes sem hafa mætt miklum hækkunum fasteignamats með lækkun á álagningarprósentu sinni. Kópavogur lækkaði hana í skrefum úr 1,650% í 1,620% og Seltjarnarnes úr 1,250% í 1,1875%. Þannig hafa þessi tvö sveitarfélög haldið tekjum sínum af fasteignagjaldi fyrirtækja nokkuð stöðugum. Önnur sveitarfélög, þar með talin Reykjavíkurborg, hafa haldið álagningarprósentunni óbreyttri og fengið hundruð milljóna í tekjuauka, alveg óháð afkomu fyrirtækjanna.

Í greinargerð með fjárhags- áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 segir að stefnan sé að álagningarprósenta fasteignagjalda verði óbreytt árið 2017. Það þýðir þá að fyrirtæki í borginni greiða hátt í milljarði meiri fasteignaskatta í borgarsjóð en í ár. Reykjavíkurborg lækkaði álagningarprósentu fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði síðast árið 2012, til að mæta hækkandi fasteignamati, en fyrirtækin í borginni hafa ekki fengið viðlíka leiðréttingu.

Ábyrgð sveitarfélaganna

Fyrirtæki mega sízt við auknum opinberum álögum nú þegar mörg þeirra eiga fullt í fangi með að standa undir launahækkunum vegna nýgerðra kjarasamninga án þess að velta þeim út í verðlagið. Sveitarfélögin í landinu bera talsverða ábyrgð á þeirri launastefnu sem varð ofan á í síðustu samningum vegna þess hvernig þau gengu á undan með ríflegum launahækkunum í samningum við eigin starfsmenn.

Stjórn Félags atvinnurekenda skoraði þess vegna fyrr í vikunni á sveitarfélög landsins að endurskoða álagningarprósentu fasteignagjalda til að mæta miklum hækkunum á fasteignamati atvinnuhúsnæðis undanfarin ár.

Það er langt frá því að vera sjálfsagður hlutur að álögur á fyrirtæki hækki um tugi prósenta á fáeinum árum vegna breytinga á fasteignamati. Fasteignagjald er í eðli sínu óheppileg skattheimta á fyrirtæki, sem leggst á eigið fé þeirra óháð afkomu. Hækkanir á fasteignaverði og þar með fasteignamati hafa ekkert um afkomu flestra fyrirtækja að segja, en stuðla að aukinni skattbyrði þeirra. Félag atvinnurekenda skorar á sveitarfélögin að taka mið af þessu, milda höggið fyrir fyrirtækin og létta þannig á þrýstingi á verðhækkanir.