Þeir sem fljúga til London á næsta ári geta valið úr allt að sex ferðum á dag frá Keflavík. Samtals verða brottfarirnar þrjátíu og sjö í viku og þar með hefur framboð á flugi til höfuðborgar Bretlands tvöfaldast á tveimur árum. Við Lundúnaflugið bætast svo ellefu vikulegar ferðir til Edinborgar,Glasgow og Manchester. Þessi tíðu áætlunarflug verða í boði allt árið, líka á fyrstu mánuðum ársins þegar ferðalög eru fátíðari.

Fljótt á litið virðist ansi vel í lagt hjá flugfélögunum og erfitt að sjá að markaður sé fyrir allt þetta flug. Talningar Ferðamálastofu sýna hins vegar að breskum túristum hér á landi hefur fjölgað um helming milli ára og flugu um sextíu þúsund Bretar frá Keflavíkurflugvelli á fyrstu fimm mánuðum ársins.

Breskum ferðamönnum verður þó áfram að fjölga hratt því áætla má að mánaðarlega verði um þrjátíu og fimm þúsund sæti í vélunum sem fljúga héðan til Bretlands á næsta ári. Ef við leikum okkur aðeins að tölunum þá munu breskir túristar taka helminginn af sætunum ef komum þeirra hingað til lands fjölgar áfram svona hratt. Afganginn fylla íslenskir farþegar og þeir sem fljúga milli N-Ameríku og Bretlands með Icelandair. Og svo verða einhver sæti tóm. En hversu mörg þau verða ræðst ekki bara af ferðagleði Íslendinga, Breta og Bandaríkjamanna. Fargjöldin ráða þar miklu og miðað við hvað framboð á flugi til Bretlands hefur aukist hratt undanfarin ár verður að teljast líklegt að farmiðar þangað verði í ódýrari kantinum á næsta ári. Alla vega á fyrstu mánuðum ársins áður en aðalferðamannatíminn hefst.

Íslendingar verða því kannski fjölmennari í stúkunni og í búðunum í London á næsta ári en árin á undan og vonandi fjölgar breskum ferðamönnum hér á landi líka.

Það gætir vafalítið spennu í herbúðum Easy Jet, Icelandair og Wow air fyrir næsta vetur því ekkert félaganna vill vera með miðana til Bretlands á brunaútsölu allt næsta ár eða aflýsa ferðum. Ef allt gengur að óskum hjá félögunum þá fjölgar brottförunum til Bretlands kannski enn frekar árið 2014 og þá hrinda kannski forsvarsmenn Ryanair hugmyndum sínum um Íslandsflug í framkvæmd.

Pistill Kristjáns Sigurjónssonar birtist í Viðskiptablaðinu 8. ágúst 2013. Áskrifendur geta nálgast hér að ofan undir liðnum tölublöð .