Þriðjudagur, 31. mars 2015
 
TölublöðVenjuleg útgáfa
31. júlí 2012

Friedman og vitringarnir þrír

Milton Friedman.

Bogi Ágústsson fréttamaður fékk Milton Friedman og þrjá valinkunna menn í umræðuþátt árið 1984.

Í dag eru eitthundrað ár frá því að Milton Friedman nóbelsverðlaunahafi í hagfræði fæddist. Friedman var meðal áhrifamestu og þekktustu hagfræðinga á 20. öldinni.

Árið 1984 kom Friedman til Íslands og hélt fyrirlesturinn „Í sjálfheldu sérhagsmunanna“.

Friedman mætti einnig í umræðuþátt í Ríkissjónvarpinu. Bogi Ágústsson, þá 32 ára gamall, stjórnaði umræðum í sjónvarpssal og stóð sig með prýði.

Utan Friedman tóku þrír valinkunnir menn þátt í umræðum. Allir áttu þeir það sameiginlegt að vera vinstrimenn og hafa unnið alla sína starfsævi hjá hinu opinbera eða fyrir samtök opinberra starfsmanna.

Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var prófessor í stjórnmálafræði við háskólann var jafnframt varaþingmaður Alþýðubandlagsins og hafði verið þingmaður flokksins árin 1978-1983. Hann varð síðar formaður Alþýðubandalagsins. Ólafur Ragnar hefur verið forseti Íslands frá árinu 1996.

Stefán Ólafsson félagsfræðingur var á þessum tíma lektor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands og er þar enn.

Birgir Björn Sigurjónsson viðskiptafræðingur stundaði nám við Stokkhólmsháskóla þegar umræðurnar fóru fram. Birgir er í dag fjármálastjóri Reykjavíkurborgar.

Þremenningarnir fengu eftir þáttinn viðurnefnið vitringarnir þrír . Hver og einn verður að dæma um það, hvort það var sagt í háði eða vegna mikillar og djúprar visku þeirra.