Nú eru tíu ár liðin frá 11. september 2001. Nú um helgina hafa flestir eflaust rifjað upp hvar þeir voru þegar þeir sáu eða heyrðu fréttir af hinum hræðilegu atburðum og sú minning mun án efa lifa lengi meðal manna.

Sjálfur bjó ég í Bandaríkjunum á þessum tíma, n.t.t. í Reno í Nevada. Ég átti að mæta í vinnuna kl. 6 (kl. 9 á New York tíma) um morguninn en hafði (aldrei þessu vant) hringt mig inn veikan þann dag. Samt ákvað ég nú að fá mér morgunmat og áður en ég skriði aftur upp í rúm til að sofa úr mér flensuna. Þegar ég kveikti á sjónvarpinu snerust allar fréttir um það að flugvél hafði flogið á annan turn World Trade Center. Enginn vissi hvort um hræðilegt slys væri að ræða eða hryðjuverk. Nokkrum mínútum síðar saup ég af heitum tebollanum þegar ég horfði í beinni útsendingu á aðra flugvél lenda á hinum turninum. Það var óraunverulegt en þarna fór auðvitað ekki á milli mála að um hryðjuverk var að ræða og eftir þetta kom ekkert á óvart. Vart þarf að taka fram að ég fór ekkert aftur að sofa heldur sat ég allan daginn með sængina í sófanum og horfði á fréttir.

11. september, hús
11. september, hús
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Flestir upplifa daginn eflaust eins en það sem á lengi eftir að sitja í minningunni hjá mér eru næstu dagar á eftir. Þrátt fyrir að vera á vesturströndinni upplifði maður sorgina, eymdina, óöryggið, reiðina og allt þar á milli, með Bandaríkjamönnum. Patrionisminn rauk upp úr öllu valdi, haldnar voru óteljandi minningarathafnir auðvitað snerust allar fréttir um hina hræðilegu atburði.

Heimurinn breyttist

En án þess að dvelja lengur við daginn sjálfan er áhugavert að velta fyrir sér áhrifum og afleiðingum þessa hræðilegu árása. Nú eru sem fyrr segir liðin 10 ár og það er kannski fyrst núna sem ráðrúm gefst til að meta af einhverri alvöru hvaða áhrif þetta hefur haft á bandarísk stjórnmál, alþjóðastjórnmál, lífshætti vesturlandabúa, öryggi og svo frv.

Nú ætlar ungi blaðamaðurinn ekki að setja sig á háan stall og varpa fram kenningum um breyttan heim. Til þess skortir reynslu og þekkingu. Hins vegar eru nokkrir punktar varðandi þennan dag og lífið næstu ár á eftir sem vert er að varpa upp.

Það fer ekkert á milli mála að árásirnar þann 11. september 2001 breyttu heiminum. Hryðjuverk voru svo sem ekki ný af nálinni, en þarna kom þó svo margt nýtt fram á sjónarsviðið sem bæði erfitt var að skilgreina og þaðan af verra að eiga við. Þannig má nefna ný vopn. Hugmyndin um flugrán var ekki ný en þetta var þó í fyrsta sinn sem menn rændu farþegaflugvélum og notuðu þær sem flugskeyti. Hvernig verst maður slíku vopni?

al Qaeda voru stjórnvöldum vestanhafs ekki ókunn en þetta var í fyrsta sinn sem þau létu til skara skríða á bandarískri jörð. Fyrir utan árásirnar á Pearl Harbour í desember 1941 hafði ekki verið barist á bandarískri jörð í um 120 ár.

Sem fyrr segir voru hryðjuverk ekki ókunn. Þeir sem komnir eru til vits og ára muna eftir hryðjuverkum á N-Írlandi og á Spáni, svo nærtæk dæmi séu tekin. Allir vissu þó og þekktu kröfur aðskilnaðarsinna (og hryðjuverkamanna) á N-Írlandi og á Spáni. Þar höfðu hryðjuverkamennirnir yfirlýst markmið sem hægt var að eiga við, svo langt sem það nær. Hins vegar vissi engin hvert markmið al Qaeda var – eða er. Svo virtist sem eina takmarkið þeirra væri að drepa sem flesta, slá vesturlönd (og þá sérstaklega BNA) út af laginu og lama vestrænt samfélag. Svo sem ekki viðtækt markmið en samt óskilgreint.

Það var þó ekkert nýtt við það að óbreyttir borgarar yrðu fyrir hremmingum. Mannfall saklausra borgara er óumflýjanlegt þegar um stríð eða hryðjuverkaárásir er að ræða og þarna varð engin breyting á. Það sem hins vegar var nýtt var að árásirnar voru gegn óbreyttum borgurum í þeirra eigin landi. Hingað til hafa ríki ráðist á hvort annað en það er ekki takmark neins þjóðarleiðtoga að gera árásir á saklausa borgara, þó svo að þeir verði alltaf þeir sem líða fyrir átökin. Þá voru sem fyrr segir engar pólitískar kröfur að baki árásunum. Þegar þróuð ríki ljúka við árásir meta þau árangurinn með tvennum hætti; tókst árásin og hversu lítið var mannfall meðal óbreyttra borgara. Illvirkjarnir í al Qaeda meta árangurinn eftir því hversu mikið mannfall er meðal óbreyttra borgara, sérstaklega ef þeir eru gyðingar eða kristnir.

Eina svar Bandaríkjanna og annarra ríkja á vesturlöndum var að heyja „stríð gegn hryðjuverkum“ og það í víðum skilningi. Hvernig og hvenær vinnur maður slíkt stríð? Hver ætlar að skrifa undir stríðslokasamninginn?

Tókst þeim ætlunarverk sitt?

En eftir stendur spurningin; Tókst al Qaeda ætlunarverk sitt? Því er ekki auðsvarað í ljósi þess að sem fyrr segir veit enginn nákvæmlega hvert ætlunarverkið var. Líklega vita þeir það ekki einu sinni sjálfir, enda blindir af blóðþorsta og hatri. Fyrir liggur að gyðingar og kristnir eru ekki einu skotmörkin, heldur sú lífsmynd sem fylgir því að búa við frelsi, lýðræði og svo frv.

En gefum okkur, umræðunnar vegna, að ætlunarverkið hafi verið að drepa sem flesta saklausa borgara, lama innviði Bandaríkjanna og annarra vesturlanda, koma höggi á viðskiptamarkaði, byggja upp ótta meðal vesturlandabúa og fleira í þeim dúr. Allt rímar þetta við talsmáta hinna öfgafullu og vitfirrtu hryðjuverkamanna. Ef við, í ljósi þessa, spyrjum okkur aftur hvort þeim hafi tekist ætlunarverk sitt má svara því bæði játandi og neitandi.

Þeim tókst auðvitað ekki að tortríma vestrænni menningu og vestrænum gildum. Þeim tókst ekki að eyðileggja viðskiptaheiminn þó hann hafi orðið fyrir höggi (reyndar má færa rök fyrir því að lausafjárbólan sem sprakk í lok árs 2008 hafi byrjað að blása upp í kjölfar árásanna en það er efni í annan pistil). Þeim tókst auðvitað ekki að fella eins marga borgara eins og þeir hefðu viljað og við skulum ekki gleyma því að það hefur ekki verið framin hryðjuverkaárás í Bandaríkjunum aftur. Loks má nefna að hin aukna krafa um lýðræði og mótmælabylgjan í fjölmörgum arabaríkjum grefur undan því að hryðjuverkasamtök skjóti rótum í slíkum samfélögum með stuðningi stjórnvalda.

Óttinn hefur heldur ekki fengið að lifa. Vitandi af  hinu illa í heiminum þá kjósa menn samt að ferðast – og það með flugvélum. Enginn er alltaf öruggur en það kjósa fæstir að lifa eftir þeim hugsunarhætti, sem betur fer.

Þeim tókst heldur ekki að breyta venjum okkar. Við hlustum ennþá á vestræna tónlist (hversu léleg sem hún kann að vera á köflum), við drekkum ennþá áfengi, við gerum grín af öllu (meira að segja Múhammeð spámanni), gerum okkur glaðan dag og njótum þess að fá að tjá okkur, trúa og lifa lífinu óháð vilja sturlaðra talíbana.

Þrengt að frelsinu

En það verður samt að viðurkennast að hryðjuverkamönnunum með Osama bin-Laden í fararbroddi tókst hluta af ætlunarverki sínu. Þeir breyttu heiminum með afdrífaríkum hætti og það mun taka ár og áratugi að snúa til baka, ef það gerist einhvern tímann.

Stærsti „árangur“ árasanna er skert frelsi vesturlandabúa. Frelsið er þyrnir í augum þessara manna og sl. tíu ár hefur það átt undir högg að sækja í vestrænum lýðræðisríkjum. Fyrir utan stjórnlyndi einstakra stjórnmála- og embættismanna sem reyna sífellt að setja ríkið í mömmuleik yfir borgurunum þá er hér ekki átt við frelsi til skoðana og athafna. Frelsisskerðingin í kjölfar hryðjuverkaárásanna hefur helst átt sér stað í auknu eftirliti yfirvalda þar sem sífellt er gengið á friðheldi einkalífsins.

Löggjöfin vestanhafs um hið svokallaða Patrio Act gengur líklega lengra í því að skerða frelsi manna heldur en ef Siv Friðleifsdóttir fengi alræðisvald yfir tóbaksnotkun og transfituneyslu Íslendinga. Í nafni öryggis geta yfirvöld nú kortlagt allar þínar hreyfingar, fundið út hvað þú keyptir, hvar og hvenær, við hvern þú talaðir í síma og um hvað, hverja þú þekkir og svo frv. Þetta truflar menn auðvitað ekki í daglegu lífi, en hver treystir ríkinu fyrir öllum þessum upplýsingum. Hægt væri að halda langa tölu um frelsisskerðinguna sem átt hefur sér stað í nafni þess að tryggja öryggi borgaranna.

Kostnaðurinn vegna „stríðsins gegn hryðjuverkum“ virðist líka verða óendanlegur. Fyrir utan ómetanleg mannslíf þá er kostnaður við rekstur eftirlitsaðila gífurlegur. Það veit enginn hvort, hvenær eða hvernig sá kostnaður dettur upp fyrir. Líklega verður það verkefni næstu kynslóða.

Frelsið og óttinn

Nú vill maður ekki gefa al Qaeda „heiðurinn“ af því að hafa breytt lífum okkar til hins verra. En í ljósi ofangreindra atriða er raunveruleikinn sá að baráttan við hið illa verður háð með einhverjum fórnum, þ.m.t. friðhelgi einkalífsins. Nú má ekki skilja það sem svo að ég sé á móti því að hið opinbera tryggi öryggi borgaranna. Það er ein af fáum skyldum hins opinbera. Ég er alveg tilbúinn til að taka af mér belti og skó áður en ég fer í flugvél vitandi að allir hinir þurfi að gera það líka. Ég er fylgjandi því að menn fái ekki að flytja inn eða ferðast með vopn og sprengjuefni í þeim tilgangi að skaða saklausa borgara.

Ég er hins vegar ekki fylgjandi því að menn gefi afslátt af frelsinu. Vestræn lýðræðisríki þurfa að sinna skyldum sínum við að gæta öryggis borgaranna en á sama tíma þurfa þau að sýna borgurunum nærgætni og virðingu. Þarna er þunn lína á milli en línan þarf samt að vera til staðar!

Stærsta vopn einstaklinganna gegn þessari ógn er að halda áfram að lifa lífinu. Það er ekki flóknara. Ef menn vilja teikna skopmyndir af spámönnum þá bara teikna menn skopmyndir. Ef menn vilja hlusta á Britney Spears þá bara verði mönnum að góðu. Ef menn vilja borða svínakjöt, leyfa konum að klæða sig og tala eins og þær vilja þá taka menn bara afleiðingunum af því. Við getum aldrei látið ofríki eða ógn illvirkja stöðva lífsvenjur okkar. Tillitsemi og virðing við önnur trúarbrögð eða aðra menningarheima má ekki koma til af ótta.

Tillitsemin og virðingin á að vera sjálfsögðu, menn geta verið kurteisir – en menn mega aldrei verða hræddir. Ef einhverjum tekst að gera okkur hrædd við að lifa eigin lífi þá skiptir frelsið engu máli. Það er hvort eð er horfið.