*

fimmtudagur, 21. júní 2018
Andrés Magnússon
8. september 2017 15:35

Ábyrgðarmenn RÚV

„Æsingurinn í að geta sagt mansalsfrétt og að „negla“ veitingastaðinn bar Sunnu og fréttastofuna ofurliði og þetta er afleiðingin,“ skrifar fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins.

Haraldur Guðjónsson

Þegar mikið liggur við fara fjölmiðlar á vettvang til þess að kynna sér fréttirnar og jafnvel til þess að segja fréttirnar. Þegar mest á ríður er jafnvel bein útsending frá slíkum atburðum. Áhorfendum Ríkissjónvarpsins fyrirgefst því þó þeir hafi haldið að í uppsiglingu væri meiriháttar fréttamál í lið­ inni viku, þegar Sunna Valgerð­ ardóttir fréttamaður á Ríkisútvarpinu, birtist í fyrstu frétt, ekki aðeins í beinni útsendingu, heldur í beinni útsendingu frá Akureyri:

Eigandi veitingastaðar á Akureyri er grunaður um vinnumansal. […] Starfsmennirnir, fimm Kínverjar, hafi fengið loforð um góða atvinnu og framtíðarbúsetu hér á landi, gegn því að greiða háa fjárhæð fyrir. Samkvæmt heimildum fréttastofu leikur grunur á að fólkið fái greiddar 30.000 krónur á mánuði í laun, borði matarafganga af veitingastaðnum og fái þak yfir höfuðið. Fulltrúar stéttarfélagsins eru nú að skoða, ásamt fleiri opinberum aðilum, hver það sé sem finni fólkið í Kína og komi því hingað til lands.

***

Þarna er nú ekki lítið sagt. Glöggir áhorfendur tóku þó eftir því að eitthvað var bogið við frásögnina. Af fréttinni allri var ljóst að Sunna hafði átt náið samstarf við verkalýðsfélagið (hugsanlega of náið, hún virtist halda að það væri opinbert stjórnvald). En hún vísaði einnig í ótilgreindar heimildir um málavöxtu. Þær hljóta að vera aðrar heimildir en félagið, bæði af því að annars myndi Sunna ekki vísa sérstaklega til þeirra. Svo er það líka grundvallarvinnuregla blaðamanna að byggja fréttir á a.m.k. tveimur sjálfstæðum og áreiðanlegum heimildum.

***

Vandinn er sá að fréttin reyndist röng. Kolröng raunar.

Það var þó ekki svo að Sunna leiðrétti fréttina og bæðist á henni afsökunar. Það var ekki einu sinni að fréttastofa RÚV hefði manndóm í sér til leiðréttingar frekar en fyrri daginn. Nei, þess í stað var Ágúst Ólafsson látinn segja þá frétt nokkrum dögum síðar, að samkvæmt tilkynningu verkalýðsfélagsins væri allt með felldu á veitingastaðnum.

Þessi vinnubrögð eru með miklum ólíkindum og ástæða er fyrir fréttastofuna til þess að fara yfir málið allt og athuga hvort aðferðir Sunnu hafi verið fullnægjandi hvað varðar sjálfstæð­ar og áreiðanlegar heimildir.

Nú dettur engum í hug að væna Sunnu um óheilindi, en það blasir við að hún hefur verið fórnarlamb óheilinda. Sennilega hafa heimildir hennar verið þær sömu og verkalýðsfélagsins og þar hefur greinilega verið um skipulega ófrægingarherferð að ræða.

Það er ömurlegt, nei skammarlegt, að Ríkisútvarpið skuli hafa látið ginna sig til þess að taka þátt í þeirri herferð. Einföld, eðlileg og góð vinnubrögð hefðu komið í veg fyrir það. Þar liggur mest sök hjá Sunnu, en ábyrgðin hvílir á Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra og fréttastofunni í heild. Æsingurinn í að geta sagt mansalsfrétt og að „negla“ veitingastaðinn bar Sunnu og fréttastofuna ofurliði og þetta er afleiðingin.

***

Skiptir máli í því samhengi að eigandinn er kínverskur, eins og sérstaklega var tekið fram?

***

Varla þarf að fjölyrða um það að áburður af þessu tagi getur riðið hvaða fyrirtæki sem er að fullu. Ekki síst þegar ríkisfjölmiðillinn fer fram með fréttina af öllu afli, eins og þarna var gert.

Fyrirsjáanlega var þessari frétt dreift víða á félagsmiðlum og hafi Sunna talað afdráttarlaust um gruninn allan, þá getur lesandinn farið nærri um ályktanirnar, upphrópanirnar og fordæmingarnar, sem virkir í athugasemdum höfðu uppi.

Hún bætir svo gráu ofan á svart þessi furðulega þvermóðska Ríkisútvarpsins við að játa á sig mistök, biðjast afsökunar og leiðrétta þessa fölsku frétt.

Jú, fjölmiðlarýnir hefur þegar þurft að hlusta á fáfengilegar varnir kollega Sunnu um að hún hafi nú „bara sagt að staðurinn væri grunaður…“ og svo framvegis. En í fréttum er orðið grunaður jafnan notað í tengslum við sakamálarannsóknir, í þessari frétt voru nefndar tilteknar upphæðir, dylgjað um slæman aðbúnað, gefið til kynna að lögreglurannsókn væri í aðsigi og þessi áherslu­ þungi var aðeins til þess fallinn að áhorfendur drægju ályktanir um að þetta væri nú nánast upplýst af rannsökurum RÚV og Verkó.

En það var ekki rétt og því mun veitingahúsið vafalaust geta sótt háar skaðabætur til RÚV með að­ stoð réttarkerfisins ef því er að skipta. Á því mun hvorki Ríkis­útvarpið né fréttastofan, Rakel né Sunna bera ábyrgð. Það verð­ ur allt á ábyrgð okkar skattgreiðenda

Stikkorð: Ríkisútvarpið Sjanghæ frétt
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.