Íslendingar hafa aldrei haft það jafn gott. Ástæður þess er alger umbylting í efnahagslífi þjóðarinnar. Við brutumst úr sjálfsþurftarbúskap með hjálp erlendra fjárfestinga í innviðum og tæknibreytingum. Við lærðum útgerð togara af breskum sjómönnum, við lærðum að nýta jarðvarmann að erlendri fyrirmynd líkt og fallvötnin. Við tókum flutninga í eigin hendur og nú er Ísland með öflugasta flutninganetið á Norðurslóðum bæði á sjó og í lofti. Fjarskiptauppbyggingin hefur líka verið gríðarleg, allt frá fyrsta símastrengnum sem kom að landi árið 1906 frá Skotlandi. Þetta er grunnur þeirra hagsældar sem við búum við, innviðanetið sem gefur okkur möguleika á framúrskarandi lífskjörum.

Innviðir landsins hafa verið afskiptir um langt skeið. Ágæt skýrsla Samtaka iðnaðarins telur að 372 milljarða þurfi á næstu 10 árum til að viðhalda núverandi kerfi. Þar vantar hins vegar að viðhald er ekki nóg, því það þarf að uppfæra kerfið reglulega í samræmi við tæknibreytingar og kröfur samfélagsins. Ég nefni því hér fjóra stóra liði sem vantar inn í samantekt SI. Á samgönguþingi í lok september, var rætt um 75 milljarða uppbyggingu á nýjum vegum til og frá höfuðborginni. Uppfæra þarf fjarskiptanetið með betri tengingum við útlönd. Isavia hefur kynnt metnaðarfullar áætlanir sem hefur í för með sér nýframkvæmdir fyrir á annað hundrað milljarða. Eins hefur um langt skeið verið fjallað um nýframkvæmdir á heilbrigðissviðinu sem eru einnig upp á annað hundrað milljarða. Það liggur því fyrir að yfir 800 milljarða vantar í innviði landsins næstu 10 ár ef vel á að vera.

Dýrmæt lexía

Það er ekki vandamál að fjármagna uppbyggingu innviða á Íslandi. Við eigum hér lífeyrissjóði sem sárvantar trausta fjárfestingakosti enda eru þeir orðnir mjög fyrirferðarmiklir á t.d. hlutabréfamarkaði og fasteignamarkaði. Í löndum sem við berum okkur helst saman við eru lífeyrissjóðir með allt að 25% af eignum sínum í innviðum, sem nýtist bæði sjóðunum og almenningi á mjög hagkvæman hátt. Sambærileg fjárhæð á Íslandi væri allt að 900 milljarðar. Reynsla okkar af Hvalfjarðargöngunum og fjármögnun þess verkefnis af lífeyrissjóðum og tryggingafyrirtækjum ætti að vera okkur dýrmæt lexía um hvernig einkaaðilar geta framkvæmt með hagkvæmari hætti en hið opinbera.

Efnahagsleg framtíð Íslands er björt, ef rétt er á málum haldið. Mér þykir til að mynda einsýnt að íbúar landsins verði yfir hálf milljón eftir innan við tvo áratugi. Okkur hefur fjölgað um helming frá árinu 1980 en nú tel ég að þróunin gerist hraðar.

Engin framtíðarsýn

Það er því skrýtið að fylgjast með umræðunni fyrir kosningar helgarinnar. Enginn ræðir framtíðarsýn sem spannar næstu áratugi. Það er ljóst að ákvarðanir í dag, eða ákvarðanaleysi, geta haft gríðarleg áhrif á framtíðina. Þegar kemur að innviðum og þróun þeirra þá eru það ákvarðanir sem skipta sköpum, enda er byggingartími og endingartími þeirra mun lengri en gengur og gerist og mælist í áratugum, jafnvel öldum.

Áform Isavia um uppbyggingu gera ráð fyrir mikilli fjölgun starfa í kringum flugstöð Leifs Eiríkssonar. Isavia áætlar að yfir 50.000 störf geti skapast þar á næstu tveimur áratugum. Slík fjölgun þýðir í raun mannfjöldaaukningu upp á 150.000 manns, enda munu fjölskyldur flytjast búferlum til að ganga í störfin. Samhliða þyrfti að stækka raforkuframleiðslu og flutningskerfi, vegakerfi, hafnir sem og félagslega innviði, spítala, skóla og svo framvegis. Hér nefni ég bara framtíðaráform eins fyrirtækis, sem gætu samt haft gríðarleg áhrif.

Það er ekki uppörvandi að elta þróun, það er bæði kostnaðarsamt og óskilvirkt. Þeir sem elta ráða ekki ferðinni heldur neyðast til að bregðast við breyttum aðstæðum hvort sem þeim líkar betur eða verr. Ef hægt er að velja um hvort sé ofan á, að leiða eða elta, þá er ljóst hvað hinn upplýsti stjórnandi ætti að kjósa. Við eigum að leiða þróunina, vera á undan og ráða því ferðinni.

Höfundur er hagfræðingur.