Í byrjun mánaðarins gaf Viðskiptablaðið enn einu sinni út hið veglega tímarit Frumkvöðlar til heiðurs þeim sem vinna baki brotnu við að skapa eitthvað nýtt og finna nýjar lausnir á þeim vandamálum sem steðja að heiminum. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að ræða við fólk sem er að gera ótrúlega áhugaverða og byltingarkennda hluti.

Deaf Iceland ætlar að auðvelda heyrnarlausum ferðamönnum að ferðast um Ísland. MyShopover ætlar að tengja saman ferðamenn sem vilja versla og heimamenn sem geta hjálpað þeim. Skaginn3X er að valda algerri byltingu í sjávarútvegi og laxeldi. Svona mætti lengi telja, í blaðinu er fjöldi fólks sem reynir að stuðla að betri heimi og er tilbúið að fórna öllu til að láta drauma sína rætast.

Það er fólk á borð við þau sem ég hef nefnt að ofan sem stuðlar að aukinni hagsæld og velmegun samfélaga. Nýjar hugmyndir búa á endanum til nýjan og betri heim. Þess vegna er lykilatriði að frumkvöðlar á Íslandi trúi því að draumar þeirra geti orðið að veruleika og þeir muni njóta afraksturs vinnu sinnar. Þeir þurfa að fá rými til að gera mistök og þeir þurfa að fá réttu hvatana frá samfélaginu. Það er fátt sem við getum gert mikilvægara heldur en að hlúa að frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun. Ef við gerum það ekki mun okkar besta fólk leita annað með þekkingu sína og við hin getum flutt aftur inn í torfkofana.

Ég er einn þeirra sem telja að við eigum að skapa. Skapa tækifæri, skapa nýjungar, skapa betri framtíð. Svo eru aðrir sem telja að við eigum að taka. Taka sem mest frá fólkinu okkar, sérstaklega þeim sem gengur vel. Taka sem mest frá fyrirtækjum svo þau skili nú örugglega ekki of miklum hagnaði. Helst taka líka frá eldri borgurum sem hafa sýnt sjálfsaga yfir ævina og safnað eignum. Þetta fólk hugsar með sér að því meira sem ríkið tekur, því meira getur það gert. Því fleiri verkefnum getur það sinnt. Því stærra og umfangsmeira getur það orðið.

Það hlýtur að vera rétt. Ríkið þarf að taka til að gefa, segir það sig ekki sjálft? Hvernig fjármögnum við annars heilbrigðis- og menntakerfið? Hvernig hlúum við að þeim sem minnst mega sín? Er það ekki með því að taka sem mest af hinum?

Nei. Ég skil pælinguna en hún er ekki rétt. Við búum ekki til betra samfélag með því að taka, heldur með því að skapa. Skapa tækni sem getur bjargað mannslífum, eins og Frumkvöðull ársins, Mint Solutions. Skapa ævintýraheim sem styttir hundruðum þúsunda manna stundir, eins og CCP. Ábatinn er nefnilega tvíþættur: Í fyrsta lagi verða til vörur og þjónusta sem auka lífskjör. Í öðru lagi verða til tekjur og störf, sem samfélagið allt nýtur góðs af. Við þurfum ekki að taka meira til að gefa meira. Við þurfum að skapa meira til að gefa meira. Horfum til þess að stækka kökuna og þá er meira til fyrir alla.

Þessi fjölmiðlapistill birtist í Viðskiptablaðinu þann 8. júní 2017.