Margir eru enn að klóra sér í kollinum yfir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um áherslur verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðunum sem nú standa yfir. Þátturinn gekk þannig fyrir sig að rannsóknarblaðamaðurinn sem stýrði umfjölluninni fékk sér göngutúr frá Austurstræti að Bankastræti. Á meðan lýstu leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar stéttastríði sem á víst að geysa um þessar mundir. Eins og fram kom í þættinum eru leiðtogarnir tilbúnir til þess að grípa til aðgerða sem stangast á við lög ef ekki verður gengið að þeirra ítrustu kröfum.

Þátturinn fékk áhorfendur til að velta því fyrir sér hvort það sé bara einn viðsemjandi við borðið í þessum kjaraviðræðum. Hvort aðrir séu í einhverju dularfullu stríði sem fæstir kannast við að standi yfir. Annar viðsemjandinn situr við borðið og er að leita lausna á því hvernig verði hægt að tryggja kjarasamninga sem varðveita þann mikla árangur sem hefur náðst á undanförnum árum nú þegar glittir í lok þessa hagvaxtarskeiðs. Hinn er að berjast fyrir svokölluðum kerfisbreytingum sem eru bæði óraunsæjar og þversagnakenndar.

Það að gera það sem forsendu fyrir gerð kjarasamninga að verðtrygging verði bönnuð og peningamálastefnunni verði umbylt – svo einhver dæmi séu tekin – er galið. Þessar breytingar byggjast á kosningastefnuskrá stjórnmálaaflsins Dögunar. Sem kunnugt er fengu þær ekki framgöngu á vettvangi stjórnmálanna á sínum tíma. Það er visst áhyggjuefni hversu litla umfjöllun þessi hlið málsins hefur fengið. Fjölmiðlar leita fyrst og fremst álits eins sérfræðings þegar kemur að spurningunni um hvað gerist ef að þú bannar verðtryggingu og ferð að stýra vöxtum Seðlabankans með handafli. Hann býr á Akranesi.