Fréttablaðið átti fjörlega forsíðu í gær, þar sem greint var frá nýrri skoðanakönnum um fylgi stjórnmálaflokka ef gengið yrði til borgarstjórnarkosninga nú. Á (einkennilega illa umbrotinni) forsíðu blaðsins gól fimmdálka fyrirsögnin:

„Sjálfstæðisflokkurinn með yfirburðastöðu.“

Svo mátti lesa frétt um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn nyti stuðnings 34,2% svarenda og þar af leiðandi ekki bara í gúddífíling, heldur í yfirburðastöðu.

(Áður en lengra er haldið er rétt að minna á að Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er bróðir fjölmiðlarýnis og sjálfur hallar yðar einlægur lítillega til hægri, bæði við bróður sinn og flokkinn.)

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar fær Sjálfstæðisflokkurinn vissulega langmest fylgi, en það er samt sem áður fullmikið sagt að hann sé í yfirburðastöðu. Árið 1994 fékk flokkurinn 47% atkvæða og naut samt ekki yfirburða. Það gerði R-listinn, því hann sigraði.

Miðað við þessar niðurstöður kann meirihluti vinstriflokkanna í Reykjavík að vera við það falla, en það er jafnaugljóst að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur ekki umræddra yfirburða sinna. Ekki miðað við þessa niðurstöðu. Og miðað við afrakstur annarra stjórnmálaflokka er ekkert sérstakt útlit fyrir að sjálfstæðismönnum auðnaðist að mynda meirihluta heldur. Framsóknarflokkurinn í molum og fylgi rúinn, Viðreisn og Björt framtíð varla nema með sitt hvorn manninn þó fulltrúum verði fjölgað og samstarf við Flokk fólksins ekki sérlega líklegt.

Jú, Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mest fylgis í þessari könnun, en fyrirsagnarpunkturinn hefði fremur átt að snúast um að borgin væri nánast óstjórnfær, nú eða um niðurlægingu borgarstjórans.

***

Umfram allt hefði Fréttablaðið þó átt að spara sér slíkar fullyrðingar eða svo víðtækar og eindregnar ályktanir af könnuninni, án þess að dregið sé í efa að hún hafi verið framkvæmd af fyllstu samviskusemi.

Könnunin var vel fréttnæm, jafnvel forsíðuefni, en hún stóð ekki undir þessarri útleggingu. Skoðum bara fyrirvarana í fréttinni sjálfri:

Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.063 manns í Reykjavík samkvæmt lagskiptu slembiúrtaki dagana 28. og 29. ágúst þar til náðist í 791. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri. Svarhlutfallið var 74,4 prósent. Alls tóku 46 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Tólf prósent sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, tæp 18 prósent voru ekki búin að gera upp hug sinn og 24 prósent vildu ekki svara spurningunni.

Með öðrum orðum var hringt í liðlega eitt þúsund manns, en að eins 791 svaraði símanum. Af þeim, sem þó höfðu fyrir því að taka upp tólið, vildu ekki nema rúmlega 360 taka afstöðu til spurningarinnar, spurningar sem kemur ekki beinlínis út úr blámanum án þess að nokkur hafi hugleitt hana eða þá kosti, sem í boði eru. 360 Reykvíkingar gátu hugsað sér að segja til um hvern þeir vildu beinlínis kjósa í borgarstjórnarkosningum. Það eru 46%.

Kannski það sé fréttin. Að aðeins 46% Reykvíkinga hafi geð í sér til þess að kjósa einhvern af þessum flokkum öllum í borgarstjórn. Vantaði þó ekki úrvalið, það mátti bæði velja Viðreisn og Sósíalistaflokkinn, sem enginn veit svo sem hvort bjóði fram.

***

Nú er það svo sem ekki einsdæmi í íslenskum skoðanakönnum, að þýðinu sé óljúft að svara kallinu og enn færri ljúft að svara spurningunni. Það má segja að það hafi verið ákveðið stef í þjóðmálakönnunum eftir bankahrun og sjálfsagt til marks um skautun í stjórnmálaviðhorfi, víðtækt vantraust til stofnana þjóðfélagsins, jafnvel vantrú á lýðræðinu.

En fjölmiðlar þurfa þá að átta sig á því og segja frá því. Jafnvel þó svo það komi fram í þeirra eigin könnunum og þeir séu þannig óbeint að gera lítið úr því hversu markverðar niðurstöður þeirra séu. Af því að trúnaður miðlanna verður að vera við almenning, ekki eigið stolt, að ekki sé sagt dramb.

***

Þar með er ekki sagt að könnunin hafi verið ónýt og einskis virði. Alls ekki. Hún er gerð á athyglisverðum tíma, skömmu eftir að margvísleg borgarmál hafa verið í brennidepli. En þegar könnunin skilar aðeins skoðunum um 360 manns blasir við að við að vikmörkin eru hærri en þolandi er og niðurstöðurnar fremur til marks um hreyfingu en fylgistölur með aukastaf.