*

laugardagur, 20. október 2018
Leiðari
6. janúar 2018 11:09

Aðhald á toppi hagsveiflunnar

Skortur á forgangsröðun og árangursmælikvörðum í rekstri hins opinbera.

Haraldur Guðjónsson

Líklega er aldrei mikilvægara að stunda góða hagstjórn en á toppi hagsveiflunnar og margt bendir til þess að við séum einmitt stödd þar — á toppnum.  Ný ríkisstjórn stendur því frammi fyrir töluverðum vanda. Ákall hefur verið um að laga hér innviði, byggja brýr, bora jarðgöng og laga vegi. Einnig hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að veita meiru fjármagni í heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Stjórnarandstaðan hefur lagt gríðarlega áherslu á þessi mál. Spurningin er aftur á móti hvort nú sé rétti tíminn til að fara í þau öll.

Eftir að fjárlög nýrrar ríkisstjórnar höfðu verið kynnt hitti Ásgeir Jónsson, deildarforseti hagfræðisdeildar Háskóla Íslands, naglann á höfuðið í viðtali á Bylgjunni. "Það sem maður hefur aðallega áhyggjur af í umræðunni er að það virðist – eins og stjórnarandstaðan talar á þinginu – að hún átti sig ekki á hvernig ríkisfjármál virka. Að það þurfi að eyða meiri peningum. Ef við förum að þenja út ríkissjóð á þessum tímapunkti í hagsveiflunni, þá erum við að fá þenslu, vaxtahækkanir frá Seðlabankanum og verðbólgu. Það skiptir mjög miklu máli að ríkið vinni á móti hagsveiflunni,“ sagði Ásgeir.

Ásgeir gagnrýndi einnig skort á forgangsröðun og árangursmælikvörðum í rekstri hins opinbera.

„Einn aðal vandinn hjá okkur er að það eru ekki til neinir mælikvarðar [á árangur eða gæði]. Eins og heilbrigðiskerfið. Hvernig skilgreinum við gott heilbrigðiskerfi? Það eru engir mælikvarðar til. Það sem er alltaf talað um er hvað við eyðum miklum peningum í heilbrigðismál. Það er ömurlegur mælikvarði, vegna þess að það eru til lönd sem eyða miklum peningum í sín heilbrigðiskerfi, eins og Bandaríkin, en eru samt með ömurlegt kerfi. Forgangsröðun skiptir máli. Hvaða mál eru það sem skipta mestu? Þessi umræða er bara ekki enn til staðar á Íslandi.

Ennfremur sagði Ásgeir að útgjöld til ákveðinna málaflokka á borð við heilbrigðismál og menntamál væru ekki góður mælikvarði á árangur.

"Það virðist vera að eini mælikvarðinn á opinbera þjónustu er hversu miklum peningum er varið í hana. Og það er ekki góður mælikvarði. Að sama skapi virðast verkalýðsfélög þess fólks sem vinnur í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu nokkurn veginn einoka þessa umræðu um hvernig þessi kerfi eiga að vera rekin. Það gengur náttúrulega ekki að láta verkalýðsfélög lækna stjórna heilbrigðiskerfinu eða láta verkalýðsfélög kennara stjórna menntakerfinu í gegnum kjarasamninga. Það verður að móta opinbera stefnu. Ríkið þarf að setja miklu meiri kröfur um skýra árangusmælikvarða í þeim peningum sem varið er í hluti eins og menntun, heilbrigðismál og annað og að við séum að fá eitthvað fyrir peninginn.“

Eftir að hafa lækkað stýrivexti í október ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum um miðjan desember. Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var á milli jóla og nýárs, er töluvert fjallað um opinber fjármál. Þar kemur fram að helsta ástæðan fyrir lækkun vaxta í október hafi sú að þá hafi verið merki um minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum. Tölur þjóðhagsreikninga nú sýndu aftur á móti að vöxtur innlendrar eftirspurnar væri meiri og aðlögun þjóðarbúskapsins að langtímajafnvægi gæti orðið hægari en spáði hefði verið í nóvember. Jafnframt kemur fram að ein af ástæðum aukinnar innlendrar eftirspurnar væri "inngjöf frá opinberum fjármálum".

"Nefndin var sammála um að horfur væru á að spenna í þjóðarbúskapnum yrði áfram umtalsverð sem kallar á peningalegt aðhald," segir í fundargerðinni. "Nefndarmenn voru einnig sammála um að aðhaldið þurfi að vera meira en ella slakni á aðhaldi í ríkisfjármálum á næsta ári miðað við það sem gert var ráð fyrir í nóvember. Voru nefndarmenn sammála um að peningastefnan myndi á komandi misserum ráðast af framvindu efnahagsmála, þ.m.t. stefnunni í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga."

Óhætt er að taka undir með peningastefnunefndinni. Kjaramálin eru eitt brýnasta, ef ekki brýnasta málið sem bíður á borði nýrrar ríkisstjórnar. Nýrri ríkisstjórn býður ærið verkefni.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.