Viðreisn kynnti framboðslista sinn í Reykjavíkurborg á þriðjudag. Af því tilefni var Þórdís Lóa Þórhallsdóttir fengin í viðtal í fréttatíma Stöðvar 2, en hún mun leiða listann í vor. Spurð um helstu stefnumál sagði hún eitthvað á þá leið að þau vildu bæta þjónustu borgarinnar og setja borgarbúa í 1. sæti (nánast orðrétt sömu niðursoðnu svör og hún gaf í viðtali við Ríkissjónvarpið), allt fremur almenn stefnumið, sem hver einasti sveitarstjórnarpólitíkus í heimi gæti tekið heilshugar undir. Þegar spurt var um hverju mætti breyta í stjórn borgarinnar stóð frambjóðandinn svo á gati, svo áhorfendum fyrirgefst þó þeir efist um erindi hans.

Nú er það svo sem ekki nýtt, að stjórnmálamenn tali óljóst og almennt, en hið óvenjulega var að Sindri Sindrason fréttamaður lét ekki bjóða sér og áhorfendum þessa loðmullu. Hann benti á það að frambjóðandinn hefði sagt um það bil ekki neitt í nokkru máli og vildi skýrari svör um hvað aðgreindi framboð Viðreisnar frá öðrum. Sindri fékk ekki skýrari svör, svo hann spurði nokkrum sinnum enn, en án verulegs árangurs. En áhorfendur urðu nú samt nokkurs vísari.

Auðvitað má segja sem svo þarna hafi nýgræðingur í stjórnmálum verið fyrir svörum og í því ljósi hefði Sindri mátt sýna eilítið minni aðgangshörku, svona í fyrsta viðtali. Það er matsatriði, en hafa ber í huga að þetta er sá, sem hefur verið valinn til þess að leiða listann og kvaðst vera borgarstjóraefni flokks síns. Í aðdraganda kosninga geta fjölmiðlar ekki gefið sumum frambjóðendum afslátt vegna reynsluleysis eða erindisleysis.

En þetta var því miður óvenjulegt hjá Sindra. Íslenskir fjölmiðlar sýna viðmælendum sínum oft allt of mikla tillitssemi, hvort sem það stafar af návíginu í örþjóðfélaginu eða almennri háttvísi fjölmiðafólks. Fólk, sem falin hefur ábyrgð fyrir almannahagsmunum – eða sækist eftir henni – þarf að vera til svars, það þarf að greina frá áformum sínum og svara fyrir gerðir sínar. Það er eitt af hinum sérstöku hlutverkum fjölmiðla, að spyrja viðeigandi spurninga um það, leiða það fram sem mestu varðar og halda fulltrúum almennings við efnið.

Jafnvel þó svo það kosti eftirgang, þrákelkni og óþægilegar spurningar, en það má vel gera án ókurteisi eða hamagangs, eins og Sindri sýndi.

Á næstu mánuðum gefast mörg tækifæri til þess áður en gengið verður til kosninga í 74 sveitarfélögum um land allt. Við verðum að vona að fjölmiðlar gegni skyldu sinni og knýi af krafti fram svör um stefnumið, frammistöðu og framtíðarsýn hjá fleirum en Þórdísi Lóu.

***

Höldum okkur við stjórnmálin, en um liðna helgi fór fram landsfundur Sjálfstæðisflokksins (þar sem greinarhöfundur var innanbúðarmaður). Þar komu saman um 1.200 manns á stærstu stjórn málasamkomu á Íslandi til þess að móta stefnuna og kjósa sér forystu, en jafnframt var fjölmiðlum boðið að senda þangað fulltrúa sína til þess að segja fréttir af fundinum.

Stundin sendi þangað Braga Pál Sigurðarson ásamt ljósmyndara, en hann lét vera að skrifa þaðan fréttir, heldur skrifaði tvo pistla þaðan í gonzóstíl.

— Til glöggvunar er gonzó sú frásagnargerð, að blaðamaðurinn lýsir upplifun sinni af atburðum og umfjöllunarefnum í 1. persónu, einatt með mjög persónulegum hætti, jafnvel svo að hann verður sjálfur í brennidepli. Sem ekki þykir til fyrirmyndar í hefðbundinni blaðamennsku. Oft er það kryddað með sleggjudómum, hálfkæringi, ýkjum og jafnvel skætingi. Það var Hunter S. Thompson, (Fear and Loathing in Las Vegas) sem ruddi þessum frásagnarstíl braut, en mönnum hefur gengið mjög misvel að höndla það stílvopn.

Aftur að pistlum Braga Páls. Óhætt er að segja að hann hafi horn í síðu sjálfstæðismanna, en mesta athygli vakti sá rauði þráður að í huga hans væri Sjálfstæðisflokkurinn nánast eins og barnaníðingahringur!

Um þann málflutning getur hver og einn dæmt, en eins og gefur að skilja vöktu þessi skrif mikil og sterk viðbrögð hjá mörgum. Þar á meðal hjá Páli Magnússyni, þingmanni Sunnlendinga (og gömlum kollega úr blaðamannastétt), sem skrifaði um það Facebook-færslu, þar sem ekki var skafið utan af hlutunum.

Það kveikti aftur viðbrögð hjá Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritstjóra Stundarinnar, sem býsnaðist m.a. yfir því að maður í valdastöðu veittist svo að skáldi og einyrkja, sem Páll virtist halda að væri blaðamaður Stundarinnar, þegar þar ræddi aðeins um mann úti í bæ, sem hefði skrifað pistil í blaðið.

Þetta er eilítið skrýtin nálgun hjá Ingibjörgu Dögg, sér í lagi þó hvernig hún reynir að sverja pistilinn af sér og miðli sínum.

Nú liggur fyrir að Stundin birti pistilinn, en þar að baki liggur ritstjórnarákvörðun líkt og um öll pistlaskrif önnur, því varla birtir Stundin hvað sem er?

Engu breytir hvort Bragi Páll er fastráðinn blaðamaður þar eða lausamaður. Ábyrgð Stundarinnar er að sönnu ekki jafnmikil á skoðanapistlum undir nafni, en hún er ekki ábyrgðarlaus samt.

Annað skiptir þó frekar máli í þessu tilviki, en það eru erindagjörðir Braga Páls á landsfundinum, því þar var hann ekki sem landsfundarfulltrúi eða gestur í eigin nafni. Sjálfstæðisflokkurinn bauð fjölmiðlum að senda tíðindamenn til þess að segja fréttir af fundinum, en fram hefur komið að það var Ingibjörg Dögg sjálf, sem skráði Braga Pál þangað „fyrir hönd Stundarinnar“. Og það er ákvörðun ritstjórnarinnar að láta umfjöllun blaðsins um landsfundinn lúta þessum efnistökum. Hún getur ekki þvegið hendur sínar af því eftir á.

***

Undanfarna daga hefur mikið borið á fréttum af samfélagsmiðlinum Facebook, en ljóst virðist vera að netrisinn hefur að minnsta kosti verið einstaklega hirðulaus um söfnun og notkun persónuupplýsinga notenda sinna.

Samskipti fjölmiðla og Facebook hafa verið nokkuð brösug, en miðlarnir hafa auðgað samfélagsmiðilinn með ókeypis efni, en í skiptum áttu þeir að fá aukna netumferð, sem því næmi. Á daginn hefur komið að Facebook hefur ekki staðið við sitt, en hefur hins vegar villt um fyrir miðlunum. Nú er að koma í ljós að trúnaðurinn við notendurna er engu meiri. Fólkið, sem Facebook skenkir fréttir að miklu leyti.