*

föstudagur, 19. apríl 2019
Óðinn
15. október 2018 12:41

Aðskilnaður ríkis og fjölmiðla

Óðinn fjallar um hnignun prentmiðla og tilraunir yfirvalda til að stemma við henni stigu.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Áfram skal haldið umfjöllun um fjölmiðla og ríkisstyrki frá fyrri viku. Líkt og þar kom fram var þróunin á Vesturlöndum sú er hallaði að lokum liðinnar aldar, að létta taumhald og minnka umsvif ríkisins á ljósvakamarkaði. Á hinn bóginn var sums staðar gripið til þeirra ráða að auka styrki og stuðning við prentmiðla með beinum hætti. Það er á grunni þeirrar sögu og þeirra hugmynda, sem nýlegar tillögur Lilju B. Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra um beina styrki við fréttamiðla hvíla.

                                                                ***

Uppgefnar ástæður fyrir þessari stefnu um styrki og niðurgreiðslur við fjölmiðla á sínum tíma, voru vísbendingar um minnkandi blaðalestur (þetta var töluvert áður en netið kom til sögunnar) og staðbundnir rekstrarörðugleikar prentmiðla, einkum utan höfuðborgarsvæða. Óuppgefnar ástæður voru hins vegar líklega ekki síður tengsl stjórnmálaflokka við marga þessa miðla, flokka sem óttuðust að samband þeirra við kjósendur og almenning kynni að vera að rofna. Sá ótti var í ljósi sögunnar sennilega ekki ástæðulaus, en þó stjórnmálaflokkar kunni að sýta þá þróun hefur almenningur ekki kvartað enn.

                                                                ***

Af ýmsum ástæðum hefur sú viðleitni hins vegar ekki skilað tilætluðum árangri. Blaðadauðinn hélt áfram og blaðalestur minnkaði sem aldrei fyrr, jafnt í þeim löndum þar sem handhafar fjárveitingavaldsins voru rausnarlegastir við fjölmiðla og hinum þar sem þeir héldu fastar um pyngju skattgreiðenda. Örar breytingar á fjölmiðlamarkaði þegar netið varð almenningseign, bæði með tilkomu eiginlegra (og yfirleitt gjaldfrjálsra) netmiðla og byltingu í framboði og miðlun afþreyingarefnis, urðu svo til þess að enn syrti í álinn hjá prentmiðlum.

                                                                ***

Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af hnignun prentmiðla. Þeir eru mikilvægir fréttamiðlar, sem byggja á gömlum grunni, og hafa almennt tamið sér öguð vinnubrögð við fréttaöflun, vinnslu þeirra og dreifingu, þó ritstjórnarstefna og efnistök geti vissulega og blessunarlega verið með afar fjölbreyttu móti. Þeir hafa sína annmarka gagnvart öðrum miðlum, aðallega sakir þess tíma sem líður frá því að gengið er frá blaðinu þar til lesandinn fær það í hendur. Á móti má segja að einmitt vegna þess að fréttirnar standa svartar á hvítu, þá er slátturinn í þeim öðruvísi en gerist í öðrum miðlum, formið býður nánast upp á lúkningu málsins, og blöðin hafa einatt tíma til slíkrar vinnslu, sem ekki er alltaf raunin í ljósvakamiðlum og með öðrum hætti í netmiðlum. Prentmiðlarnir eru meðvitaðir um þetta og vinnubrögðin miðast við það.

                                                                ***

Sem fréttamiðlar eru blöðin oftast eindregnari, jafnvel persónulegri, en aðrir miðlar. Umfram allt er þeim þó samofið að birta auk fréttanna frekari greiningar, fréttaskýringar og skoðanir, sem öðrum miðlum er óeiginlegra (þó sumum vefmiðlum svipi vissulega til prentmiðla að því leyti).

                                                                ***

Sá þáttur er ekki síður nauðsynlegur þriflegri og þroskaðri þjóðmálaumræðu en fréttirnar, lýðræðinu beinlínis nauðsynlegur. – Það var ekki nóg að segja fréttir og sýna fyrirsátina þegar Panama-skjölin voru efst á baugi; það varð líka að fjalla um álitaefnin, leggja mat á atburðarásina sem að venju hafði tekið völdin, og síðan auðvitað stóru spurninguna um hvort SDG mætti vera eða yrði að fara. Um það áttu ýmsir ágæt innlegg í spjallþáttum ljósvakamiðla, en það var samt sem áður aðeins spjall og skraf, annars vegar og aftur á móti. Það var á síðum blaðanna, sem hin eindregnu rök málsins voru lögð fram. Svo dæmdi hver fyrir sig.

                                                                ***

Sú hlið prentmiðla er þjóðþrifaverk og það er þess vegna, sem það verður að taka áhyggjur af rekstrarumhverfi þeirra og annarra frjálsra fjölmiðla alvarlega.

                                                                ***

Það er eftir sem áður einstaklega erfitt að réttlæta niðurgreiðslur og ríkisstyrki til þeirra – það að allir skattborgarar landsins verði að leggja sitt af mörkum til þess að þeir megi lifa, öldungis óháð því hvort þeir eru góðir eða lélegir, hvaða ritstjórnarstefnu þeir fylgi eða afstöðu til viðfangsefna dagsins.

                                                                ***

Þá er nefnilega höggvið of nærri ákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum um skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og félagafrelsi. Það er ekkert réttlæti eða frelsi fólgið í því að menn séu nauðugir viljugir látnir greiða fyrir fréttir eða skoðanaflutning, sem þeir kæra sig ekki um, eru ósammála eða beinlínis andsnúnir.

                                                                ***

Gleymum því ekki að þegar kemur að skoðunum og afstöðu fjölmiðla eru þeir oftast frekar fyrirsjáanlegir. Sumir þeirra geta verið hlynntir eða í beinum tengslum við stjórnmálaflokka, lífsskoðunarfélög eða hagsmunasamtök, og jafnvel beinlínis gefnir út til þess að flytja almenningi þau viðhorf. Og ekkert svo sem að því, en það er eitthvað bogið við að allur almenningur þurfi að standa straum af kostnaðinum við það.

                                                                ***

Ef stjórnvöld vilja hlutast til um það að styrkja fjölmiðla geta þau auðvitað gert það í krafti þingstyrks. Ef almenningur reynist því ósammála getur hann svo kosið það fólk burt, ekki síðar en eftir fjögur ár. Það er ekkert ómögulegt í því, en minnug hins heita fjölmiðlasumars 2004, skyldi enginn vanmeta djúpstæðar skoðanir almennings á fjölmiðlaumhverfinu og svigrúmi stjórnvalda til afskipta af því. Afskiptum yfirvalda af fjölmiðlum, sem fólk lítur réttilega á sem afskipti ríkisins af tjáningarfrelsinu.

                                                                ***

Setjum nú sem svo að komið verði á fjölmiðlastyrkjakerfi og tíminn líði, það komi á daginn að fjölmiðlastyrkirnir séu fánýtir og almenningur leggist gegn þeim. Hvaða menningarmálaráðherra á þá að stíga fram með stjórnarfrumvarp í hendi, sem afnemur styrkina? Ef þar ræðir um styrki, sem fjölmiðlana munar um, þá blasir við að ef þeir verða lagðir niður einn daginn munu velflestir miðlarnir umsvifalaust lenda í stórfenglegum rekstrarvandræðum. Nema auðvitað Ríkisútvarpið. Það er því svo að verði styrkjunum einu sinni komið á, þá mun reynast einstaklega örðugt að leggja þá af aftur og ekki án þess að stefna frjálsri fjölmiðlun í landinu í staka hættu.

                                                                ***

Það er hins vegar langa leiðin að bíða í fjögur ár og hún er óþörf. Þó við kjósum ekki til þings nema á fjögurra ára fresti (ef allt er í lagi), þá er rétt að hafa í huga að það er kosið um fjölmiðla hvern einasta dag. Daglega kjósum við suma fjölmiðla og höfnum öðrum. Eins og vera ber. Þar liggur hinn eðlilegi styrkur fjölmiðla og í því felst aðhaldið við þá.

                                                                ***

Í því samhengi er rétt að minnast á algengt tal um áhrifamátt fjölmiðla og dagskrárvald þeirra. Það er rétt, að miðlarnir geta haft margvíslega áhrif með umfjöllun sinni, áherslum, fréttamati og skoðanaflutningi. En því fer fjarri að í því felist beint áhrifavald yfir lesendum, áheyrendum og áhorfendum. Þeir velja sér flestir fjölmiðla sem þeir treysta; bæði hvað varðar áreiðanleika frétta og skoðana. Að því leyti er réttara að segja að miðlarnir elti lesendur sína en öfugt.

                                                                ***

Borgaralegt viðhorf Morgunblaðsins er til dæmis vafalaust í nokkrum takti við lífsskoðanir þorra lesenda þess. Ef ritstjórarnir yrðu hins vegar galnir einn góðan veðurdag og tækju upp trúboð Gunnars Smára Egilssonar á síðum blaðsins, yrði afleiðingin ekki sú að lesendurnir fengju sér köflótta skyrtu og kyrjuðu Nallann, heldur hin, að þeir myndu láta sig hverfa samdægurs.

                                                                ***

Lilja B. Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra gerir sér vel grein fyrir þessu öllu. Þess vegna miða tillögur hennar við almenna fréttamiðla, vafalaust til þess að sneiða hjá vandanum, sem fylgir málflutningsmiðlunum að þessu leyti og fyrirbyggir líklega að einhverjir geti sett á laggirnar einhvers konar miðla til þess að leggjast á jötuna, hvort sem það væri nú gert til þess að sækja sér ókeypis og auðvelda peninga eða til þess að láta almenning niðurgreiða pólitískan áróður.

                                                                ***

Það leysir þó ekki allan vanda, því hvar skal draga mörkin?

                                                                ***

Umfjöllunarefni frétta Viðskiptablaðsins eru þannig nokkuð afmörkuð við fjármála- og athafnalíf. Eru það nógu almennar fréttir fyrir Lilju? Í Viðskiptablaðinu, sem kallað hefur sjálft sig „málgagn atvinnulífsins“, er einnig að finna margvíslega skoðanadálka, sem flestir eru nokkuð til hægri við miðju. Væri það of mikil boðun markaðshyggju fyrir Lilju? Verða einhverjir mælikvarðar á því og hverjir munu meta það? Hvað með Stundina, sem flytur ekki almennar fréttir (og er með tiltölulega lágt hlutfall fréttaumfjöllunar gagnvart skoðanaskrifum), en margir treysta á til rannsóknarblaðamennsku um sumt sem þeim er hugleikið? Á hún nokkurn sjans hjá Lilju? Dygði Stundinni að auka hlutfall frétta með því að fækka skoðanasíðunum, þó þær njóti talsverðra vinsælda lesenda hennar? Yrði Stundin að draga úr þeim pólitíska tón, sem finna má á flestum fréttasíðum hennar? Aftur, hver væri mælikvarðinn og hverjir myndu meta? Nú eða Morgunblaðið, sem ber höfuð og herðar yfir aðra miðla í fréttaflutningi (að magni og oft gæðum), en er einnig með mjög afdráttarlausa afstöðu á ritstjórnarsíðum. Þyrfti hann að tóna sig eitthvað niður til þess að vera í náðinni hjá Lilju?

                                                                ***

Nei, það blasir við að sama hvaða reglur, mælikvarða og mat, hið opinbera reynir að leggja á það allt, þá verða ævinlega á því verulegir vankantar. Flestir þannig að þeir, sem á hallar, geta fundið pólitískan flöt á því. Það verður kannski ekki allt málefnalegt eða raunhæft, en þegar til kastanna kemur skiptir það litlu. Það þarf ekki stór hópur fólks að efast um réttlæti og hlutleysi í styrkjaútdeilingu ríkisins til sérútvalinna fjölmiðla þess að kippa fótunum fullkomlega undan kerfinu. Þar er meginreglan sú, að sameiginlegir sjóðir séu notaðir til sameiginlegra og óumdeildra þarfa.

                                                                ***

Þá er alls órætt um það hvernig slíkir styrkir munu óhjákvæmilega – líkt og í öllum styrkjakerfum – grafa undan aðhaldi markaðarins, aðhaldi almennings. Hann mun festa þá í sessi sem fyrir eru á markaði, hugsanlega óverðskuldað, en setja þröskuld fyrir þá, sem vildu stofna nýja miðla. Um leið væri dregið úr hvers konar nýbreytni, frumleika og framtaki hjá miðlunum sjálfum.

                                                                ***

Fyrst og síðast er það þó hið sérstaka hlutverk fjölmiðla, sem gerir það að verkum að það er óráð að taka upp ríkisstyrki við þá. Fjölmiðlum ber að veita stjórnvöldum aðhald, en varðhundar gelta ekki að þeim sem gefa þeim að éta.

                                                                ***

Í öðru lagi er það ekki og má ekki vera ríkisvaldsins að velja það hverjir vinna og hverjir tapa á markaði. Hvorki hvað varðar einstaka miðla né á markaðstorgi hugmyndanna, en ekki heldur að reyna skakka leikinn á umbrotatímum í fjölmiðlun um allan heim.

                                                                ***

Í þriðja og síðasta lagi eru ríkisstyrkir við fjölmiðla bæði rangir og ógeðfelldir. Fjárveitingum til fjölmiðla mun fylgja regluverk og eftirlit með fjölmiðlum, líkt og ráðherra hefur þegar boðað, en fjölmiðlar mega ekki undir nokkrum kringumstæðum vera upp á náð valdamanna komnir. Þess vegna verður að berjast fyrir aðskilnaði ríkis og fjölmiðla.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim