*

mánudagur, 25. mars 2019
Garðar Valdimarsson
18. mars 2018 10:43

Aðstöðumunur við útreikning dráttarvaxta

Ríkið fær í öllum tilfellum 12% dráttarvexti en greiðir einungis 3,73% skaðabótavexti ef það oftekur tekjuskatt af gjaldanda.

Haraldur Guðjónsson

Á árum áður var það stundum haft á orði í fjármálaráðuneytinu að ríkissjóður ætti sér fáa vini. Þegar kemur að útreikningi dráttarvaxta samkvæmt nýlegum dómi virðist ríkissjóður hins vegar njóta óhóflegrar velvildar. Umtalsvert og augljóst ójafnræði er á milli gjaldanda og ríkisins hvað varðar vaxtaútreikning og hallar þar verulega á gjaldandann. Gjaldandi þarf í öllum tilfellum að greiða 12% dráttarvexti til ríkisins ef hann greiðir ekki álagðan tekjuskatt á eindaga en hins vegar þarf ríkið einungis að greiða gjaldandanum 3,73% í vexti (skaðabótavexti) hafi það oftekið tekjuskatt af honum.

Þetta ójafnræði varð mönnum ljóst þegar á tíunda áratug síðustu aldar og gerði m.a. Umboðsmaður Alþingis sérstakar athugasemdir við þetta fyrirkomulag í bréfi til þingsins. Í tilefni af því flutti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis árið 1993 frumvarp til laga um endurgreiðslu oftekins fjár þar sem lögð var til sú regla að í því tilfelli að stjórnvöld hefðu ranglega krafið aðila um hærri skatta eða gjöld en heimilt væri að lögum skyldi greiða gjaldanda dráttarvexti af því fé sem oftekið var. Sagði í almennum athugasemdum frumvarpsins að aðstöðumunur þess aðila sem fer með opinbera valdið og greiðandans væri gífurlegur varðandi endurgreiðslur. Frumvarp þetta komst ekki á dagskrá 117. löggjafarþings 1993-94.

Þarna var sem sagt gerð tillaga um algert jafnræði milli stjórnvalda og gjaldenda um dráttarvaxtaútreikning. Kom í ljós að frumvarp þetta féll ekki í kramið hjá stjórnvöldum sem gagnrýndu það og gerðu athugasemdir við ýmsar greinar þess. Fjármálaráðherra skipaði því nefnd í málið sem samdi nýtt frumvarp sem varð síðan að lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Ekki er getið um það hverjir sátu í þeirri nefnd.

Frumvarp þetta var sagt byggja á frumvarpinu frá 117. löggjafarþinginu en samhliða því var flutt frumvarp til laga nr. 31/1995 sem meðal annars innleiddi nýja reglu um útreikning dráttarvaxta þegar gjaldandi hafði kært úrskurð skattstjóra til yfirskattanefndar. Þegar nefnd fjármálaráðherra hafði farið höndum um útreikningsreglur dráttarvaxta voru þær ekki eins hagstæðar gjaldendum og frumvarp efnahags- og viðskiptanefndar hafði gert ráð fyrir.

Óttaðist ráðuneytisnefndin m.a. að bókhaldskerfi ríkisins væri illa búið til þess að taka upp breyttar reglur. Þó var ákveðið í lögum nr. 29/1995 að greiða skyldi dráttarvexti frá þeim tíma sem gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta og gjalda. Þá var það ákveðið að þetta nýja ákvæði skyldi ekki gilda þar sem „lög mæla fyrir á annan veg.“

Í framhaldi af því voru þau ákvæði sett með lögum 31/1995, þ.e. með 3. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga, sbr. nú 3. mgr. 114. gr. tekjuskattslaga, að kærðu menn álagningu til yfirskattanefndar skyldi reikna dráttarvexti á endurgreiðslu sem stafaði af því að nefndin hafi fellt niður eða lækkað álögur skattstjóra, en því aðeins að nefndin hefði við úrskurð sinn farið fram úr þeim tíma sem henni er lögskipað að afgreiða kærur, sem er sex mánuðir. Þetta þýðir að afgreiði nefndin á þeim tíma sem henni er ætlaður samkvæmt lögum fær kærandinn enga dráttarvexti.

Álögur ríkisskattstjóra lækkaðar sem nemur milljörðum

Nú er það þannig að skattyfirvöld eru ekki óskeikul frekar en aðrar manngerðar stofnanir. Þannig hafa mörg mál verið kærð með góðum árangri til yfirskattanefndar sem fellt hefur niður eða lækkað álögur ríkisskattstjóra. Er hér samtals um milljarðalækkanir skatta að ræða. Í mörgum þessara mála hafa gjaldendur krafist dráttarvaxta miðað við endurkröfudag og hefur Hæstiréttur í einu slíku máli samþykkt slíka kröfu þar sem málið hafi tafist umfram sex mánuði hjá yfirskattanefnd, sbr. hæstaréttarmál nr. 241/2010. Þá hafa dómstólar í fjölda mála, sem ekki hafa farið til yfirskattanefndar, úrskurðað gjaldendum dráttarvexti frá endurkröfudegi, þar á meðal í tveimur tekjuskattsmálum.

Stjórnvöld hafa þrátt fyrir þetta neitað að miða dráttarvexti gjaldenda við dagsetningu endurkröfubréfs og haldið sig við dagsetningar ákveðnar af yfirskattanefnd, þ.e. frá þeim degi sem málið hefur verið sex mánuði hjá nefndinni. Gjaldendur hafa þannig misst rétt til dráttarvaxta við það að leita réttar síns til yfirskattanefndar.

Héraðsdómur féll í einu slíku máli 13. júní 2016 þar sem yfirskattanefnd hafði fellt niður tæplega 500 milljóna kr. kröfu sem ríkisskattstjóri hafði ranglega lagt á gjaldanda og snérist málið um dráttarvaxtaviðmiðun vegna endurkröfu hans. Dómurinn komst að þeirri niðurstöður að dráttarvaxtaákvæði laga 29/1995 og dráttarvaxtaákvæðin í 3. mgr. 114. gr. tekjuskattslaga fjölluðu ekki um sama tilvikið og þegar litið væri til vilja Alþingis væri hann skýr að þessu leyti. Hann úrskurðaði því gjaldanda í vil, þ.e. heimilaði dráttarvexti frá dagsetningu endurkröfubréfs.

Í þessu sambandi vitnaði dómurinn í áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 241/2010. Hæstiréttur, hins vegar, snéri niðurstöðu héraðsdóms við og sýknaði íslenska ríkið, sbr. dóm í máli nr. 617/2016, sem kveðinn var upp 19. desember sl., en málið var flutt fimm dögum áður, 14. desember. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að í framangreindri 3. mgr. 114. gr. væri að finna sérreglu um endurgreiðslu tekjuskatts sem gengi framar dráttarvaxtaákvæðum laga nr. 29/1995. Rétturinn féll þó frá málskostnaði á báðum dómstigum. Ekki þótti réttinum ástæða til þess að minnast neitt á röksemdir héraðsdóms um fordæmi dóms nr. 617/2016 eða vilja Alþingis, en tókst að afgreiða málið fyrir jólafrí.

Sératkvæði frá 1986 ekki með forspárgildi

Í dómi Hæstaréttar í svokölluðu þungaskattsmáli, H1986 462, segir svo í sératkvæði Magnúsar heitins Torfasonar prófessors, en málið fjallaði um endurkröfurétt gjaldanda á ólöglegu kílómetragjaldi sem hann hafði greitt án fyrirvara og meirihluti Hæstaréttar því sýknað ríkið:

Það er því ljóst, að aðstöðumunur ríkissjóðs og skattþegns á sviði skattaréttar er gífurlegur. Þetta skapar tvöfalt siðgæði, er grefur undan virðingu manna fyrir lögunum og teflir réttaröryggi í hættu. Þessa aðstöðumunar hefur framkvæmdarvaldið leitast við að afla sér með atbeina löggjafans. En lagasetningu á sviði skattaréttar eru takmörk sett samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar þau mörk eru virt að vettugi, er það hlutverk dómstóla að vernda skattþegnana, svo sem lög frekast heimila.

Magnús taldi því ekki rétt að hafna endurgreiðslukröfu gjaldanda. Það er stundum sagt að sératkvæði í fjölskipuðum dómi beri með sér vísbendingu eða spá um rétt framtíðarinnar. Það er ljóst að spáin sem fram kom í sératkvæðinu frá 1986 hefur ekki ræst í dómi Hæstaréttar nú fyrir jól. Þá var hér á árum áður, eins og fram kom í upphafi þessa greinarkorns, gjarnan haft á orði í fjármálaráðuneytinu að ríkissjóður ætti sér fáa vini. Ekki er víst að þau ummæli standist heldur tímans tönn.

Höfundur er meðeigandi í Lex lögmannsstofu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.