Morgunblaðið var með í gær frétt af vinnu við gerð frumvarps um breytta tilhögun hvað varðar mannorðsmissi fyrir dómi, uppreistar æru og alls þess, sem mikið hefir verið deilt um að undanförnu, en Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra mælti fyrir um verkið og telur slíkar lagabreytingar ekki óyfirstíganlegar, þó að þær kalli á breytt ákvæði í fjölda laga.

Með fylgdi lítill rammi, sem ekki lét mikið yfir sér, um tímalínuna við uppreist æru kynferðisbrotamanns, sem var tilefni þessarar umræðu allrar og víðtækrar hneykslunar, mjög tilfinningaríkrar á köflum, svo ekki sé meira sagt.

Í þeirri umræðu, bæði á félagsmiðlum, netmiðlum og prenti, hafa stjórnmálamenn verið vændir um annarleg sjónarmið, að hafa viljað sérstaklega koma umræddum manni til aðstoðar og svo framvegis, þó ljóst megi vera að þetta ferli við „uppreist æru“ sakamanna, sem ekki hafa brotið af sér í tiltekinn tíma eftir að hafa tekið út refsingu, er í mjög föstum farvegi á kontórum hins opinbera og kalla ekki á neina umfjöllun kjörinna emb­ættismanna. (Væri þá enda fyrst ástæða til þess að hafa áhyggjur ef slíkir gjörningar væru háðir geðþótta ráðherra.)

Hið merkilega er að samkvæmt þessari tímalínu er ljóst að það er rangt sem Ríkisútvarpið greindi á sínum tíma frá og fleiri miðlar virðast hafa étið upp, að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra (þá fjármálaráðherra) hafi komið að málinu í forföllum Ólafar heitinnar Nordal og beri því sérstaka pólitíska ábyrgð á því.

Nú síðast var það gert með mjög afdráttarlausum hætti í forystugrein Fréttablaðsins í gær og látið að því liggja að hann sé á einhvern hátt ábyrgur fyrir því að hafa valdið þolendum kynferðisbrota vanlíðan eða verra, að hann fái sko ekki að bíða málið af sér.

***

Þetta er einstaklega aumt allt, því þarna hefur Bjarni verið borinn óbeinum sökum, sem hann hefur hvergi fengið tækifæri til þess að bera af sér með beinum hætti; röngum sökum um staðreyndir, sem einstaklega auðvelt er að komast að og staðreyna. Einmitt það er hið sérstaka hlutverk fjölmiðla.

Má þó öllum ljóst vera að Bjarna er óljúft að „bera af sér sakir“ um þetta, því aðkoma ráðherra að þessum málum er aðeins formleg, en með því að varpa því af sér væri hann óbeint að skella skuldinni á hina látnu vinkonu sína. Um mál, sem honum kom ekki við, hann kom ekki að og er síðan borið á brýn að hann vilji forðast umræðu um aðkomu sína!

Bæði Ríkisútvarpið og Fréttablaðið skulda forsætisráðherra mjög auðmjúka afsökunarbeiðni fyrir þessa atlögu að æru hans.

***

Segja má að bandaríski dálkahöfundurinn Walt Mossberg hafi verið frumkvöðull í fjölmiðlaumfjöllun um tölvur og hugbúnað fyrir almenning, þó að auðvitað hafi mikið verið skrifað fyrir nerði heimsins fyrir það. Hann hélt úti tölvudálki sínum í Wall Street Journal frá 1991–2013 og síðar á netmiðlinum Recode, en í þeim fyrsta sló hann tóninn með setningunni „Einkatölvur eru einfaldlega of erfiðar í notkun og það er ekki þér að kenna.“

Walt frændi, eins og þessi virtasti tölvublaðamaður heims er oft nefndur, settist í helgan stein í fyrri mánuði, þó sjálfsagt eigi hann eftir að láta frekar að sér kveða, sjötugur og í fullu fjöri. Margir hafa orðið til þess að fara yfir feril hans og heiðra með ýmsum hætti og hafa meðal annars velt fyrir sér hvort ekki megi lesa eitthvað í hann um þróun fjölmiðla. Að Mossberg hafi hætt á WSJ þegar dagblöð tóku að dala, tekið þátt í stofnun vandaðs netmiðils, en frekar lagt pennann á hilluna en að taka þátt í smellusamkeppninni, stytta mál sitt niður í mínútuskammta og svo framvegis. Má vera, það er allt umhugsunarvert.

Í grein um Mossberg rifjaði tölvufrumkvöðullinn Jean-Louis Gassée hins vegar upp að hann hefði einhverju sinni sent blaðamanninum nótu, um að hann hefði ekki verið nógu ágengur í spurningum í viðtali við einhvern loftkastalasmiðinn, sem ljóslega hefði færst undan að svara sumum spurningum og gefið loðin og villandi svör við öðrum. Mossberg svaraði:

Aldrei vanmeta lesendur. Þeir sjá vel hvað er að gerast. Þannig að maður eftirlætur bullukollunum bara að plaffa niður sín eigin skip.

Þetta var ágætlega orðað hjá Walt frænda. Og á oft við. Það er ekki nauðsynlega hlutverk blaðamanna að rengja viðmælendur eða reka ofan í þá rausið þegar svo ber undir. Stundum er einmitt bara ágætt að það komi fram þannig að lesendur eða áheyrendur dragi sínar ályktanir fremur en að blaðamaðurinn verði beinn eða óbeinn þátttakandi í þrætu um málefnið.