„Ég heiti Pétur og ég er blaðabarn.“ Allir: „Hæ Pétur.“ „Ég hef verið blaðabarn síðan ég byrjaði hjá Viðskiptablaðinu í lok ágúst – og sama hvernig ég reyni að afmá þann stimpil – það gengur ekkert. Ég er reyndar frekar unglegur í framan, sumir hafa líkt mér við ungan (hann hefur svo sem alltaf verið ungur) Gísla Martein."

En hvað er það að vera blaðabarn? Eftir að hafa lagst í talsverða rannsóknarvinnu á myrkustu afkimum alvefsins, hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að ef þú ert blaðabarn, ertu einn helsti óvinur Íslands. Að minnsta kosti virðist það vera raunin samkvæmt „virkum í athugasemdum“. Blaðabörnin skrifa oftast netfréttir, þær eru hroðvirknislega unnar, fullar af stafsetningar- og málfarsvillum og til að bæta gráu ofan á svart, virðast blaðabörnin misskilja allt. Þetta er gert samkvæmt nettröllunum til að gera Íslendinga forheimska. Það er svo sem engin nýlunda að horfa niður á yngri kynslóðir. Ég ætla ekki að vera einn þeirra sem draga upp gamlar tilvitnanir í egypska faraóa – eða breska aðalsmenn, sem agnúuðust yfir ungu kynslóðinni.

Málið er samt frekar snúið. Því ég vil vanda mig og reyni að leggja mig fram við það að skrifa áhugaverðar, skemmtilegar og vandaðar fréttir. Mig langar að standa mig vel í vinnunni. Ég er sammála því að íslenskan sé dýrmæt eign og ég vil vinna að því að hlúa að henni og viðhalda henni. En ég er líka bara mennskur. Mennskt blaðabarn í þokkabót. Inn í textann slæðast málfarsvillur. Sumt er illa orðað o.s.frv. En sumir dagar eru bara verri en aðrir dagar. Ég fagna því að fólk sem þykir vænt um íslenskuna fylgist með því sem er skrifað á netið. Stundum leyfa blaðamenn, reyndar á öllum aldri, þeirri tímapressu sem er oft leiðinlegur fylgifiskur nútíma blaðamennsku, að koma niður á fréttunum. Mér finnst það sjálfsagt mál að ráðast í umbætur, ef tilefnið er raunverulegt.

Til þess að fullvissa ykkur um það að þetta sé ekki enn einn umkvörtunarpistillinn ætla ég að benda á nokkrar gífurlega einfaldar og vel úthugsaðar lausnir á þeirri meginsynd að vera blaðabarn. Til dæmis gæti ég vandað mig betur. Tekið tíma, lesið fréttirnar mínar betur yfir. Spurt álits samstarfsmanna minna, oftar. Ég hugsa að ég geri það bara. Ekki bara svo að lesendur Viðskiptablaðsins geti verið ánægðari. Ég vil ekki senda frá mér lélegt efni. En ég vona að fordómar gagnvart blaðabörnum minnki við lestur pistilsins. Ég vona bara að það séu ekki margar villur í honum. Eða hvað?