Þrátt fyrir að útgefandi njóti sömu hagsbóta og á Aðalmarkaði er skráning skuldabréfa á First North mun ódýrari.

Á First North skuldabréfamarkaði Nasdaq eru skráðir 29 skuldabréfaflokkar og þar af 16 í Svíþjóð. Ef tekið er mið af vergri landsframleiðslu er hlutfall skráðs magns hæst í Danmörku eða 0,24% en lægst á íslenska markaðnum eða um átta sinnum lægra.

Hver er tilgangurinn með að skrá skuldabréf á First North markað Kauphallarinnar? Svarið er í grunninn lægri kostnaður og nýting á sértækri fjárfestingarheimild lífeyrissjóða.

Gera má ráð fyrir að kostnaður við skráningu skuldabréfa á Aðalmarkað nemi nærri tug milljóna króna líkt og sjá má á nýlegri skráningarlýsingu Heimavalla hf. sem skráði HEIMA100646 í desember síðastliðnum. Á blaðsíðu 22 kemur fram að heildarkostnaður við skráningu hafi verið 11,6 m.kr. en þar af nam kostnaður við gerð lýsingar og sölu bréfanna 10 m.kr. en Íslandsbanki hafði umsjón með hvoru tveggja.

Líkt og kemur fram í nýlegum upplýsingabæklingi Kauphallarinnar um skráningu skuldabréfa á First North birta útgefendur á þeim markaði eingöngu svokallað skráningarskjal í stað skráningarlýsingar. Í þeim tilfellum sem útgefendur hafa fyrir skráð verðbréf á Aðalmarkaði eða First North njóta þeir þess að vera undanþegnir að birta upplýsingar í skjalinu sem hafa áður verið birtar markaðnum. Skráningarferli á First North er ódýrara og styttra. Fjármálaeftirlitið hvorki yfirfer né staðfestir skráningarskjal og gera má ráð fyrir að þóknun umsjónaraðila sé umtalsvert lægri. Þá er skráningargjald skuldabréfa á First North um 50% lægra en á Aðalmarkað.

Í desember sáu ALDA Sjóðir hag sinn í að skrá fyrsta skuldabréfaflokkinn á íslenska First North. Flokkurinn hefur auðkennið GLEQ3 15 1, er í dollurum og nafnvirði flokksins er höfuðstólstryggt. Ekki eru eiginlegir vaxtamiðar á flokknum þar sem ávöxtun hans ræðst af ávöxtun átta erlendra hlutabréfavísitalna en að lágmarki verður hún engin. KPMG ehf. var umsjónaraðili skráningarinnar og sá jafnframt um gerð skráningarskjalsins. Kostnaður við skráninguna er ekki tíundaður í skjalinu vegna trúnaðar en undirritaður hefur eftir áreiðanlegum heimildum að hann hafi verið mun lægri en 11,6 m.kr. í tilfelli HEIMA100646.

Lífeyrissjóðir eru líklegastir til að kaupa skuldabréf fyrirtækja en þeir vilja sem flestar upplýsingar uppi á borðum – ef ekki áður þá nú í ljósi nýlegra atburða hjá United Silicon. Skráning á First North tryggir tímanlegt upplýsingaflæði frá útgefendum. Í svokölluðum lífeyrissjóðalögum nr. 129/1997 er sérákvæði um fjárfestingarheimildir sjóðanna í fjármálagerningum sem skráðir eru á markaðstorg fjármálagerninga (MTF) en First North er slíkur vettvangur. Er sjóðunum heimilt að fjárfesta sem nemur 5% af heildareignum sínum í gerningum sem skráðir eru á MTF. Ekki lá opinberlega fyrir við skrif greinarinnar hversu mikið sjóðirnir eiga í slíkum gerningum en þau svör fengust frá Fjármálaeftirlitinu að slíkar upplýsingar verða tiltækar í lok ársins. Þó má sjá á hagtölum Seðlabankans um heildareignir lífeyrisjóða að bolmagn lífeyrissjóða sem þeim er heimilt að verja í verðbréf skráð á First North síðastliðinn júní var í heildina um 184 ma.kr.

Ljóst er að rök eru fyrir skráningu skuldabréfa á First North, hvað varðar tíma, kostnað og vænta eftirspurn.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.