Nýta má Monte Carlo hermanir (MC) til að bera saman stöðutökur og sérstaklega mögulegt tap. Þegar stöðutaka er ákvörðuð mætti horfa til þess að reyna lágmarka mikla neikvæða ávöxtun, og þar næst hlutfall stöðunnar sem leyfir opnun á mikilli – en sjaldgæfri - jákvæðri ávöxtun. Nauðsynlegt er að herma stöðutöku til framtíðar með miklum fjölda slembiferla - nauðsynlegra en að reyna giska á punkta framtíðarinnar. Dreifing væntanlegrar ávöxtunar er mun mikilvægari en meðaltal hennar.

Eru sviðsmyndir nægar? Vissulega eru sviðsmyndir hjálplegt verkfæri og þá sérstaklega ef raunhæfar líkur eru áfestar við hvert ástand. Lesendur þekkja að vænt niðurstaða er lykilatriðið, það er líkur ástands margfaldaðar við niðurstöðu þess. Það kæmi lesendum ekki á óvart ef nýstofnuð kerfisáhættunefnd hefur farið yfir ítrekaðar MC á framtíðarstöðu fjármálakerfisins miðað við gefnar dreifingar á fyrsta fundi sínum. Í framhaldinu hefði nefndin getað einbeitt sér alfarið að þeim reglum sem lágmarka skaðann á hagkerfið fremur en að þreyta sig á punktspám og spá sögustund framtíðarinnar.

Þá hafa starfsmenn Seðlabankans vafalaust gert slíkt hið sama þegar ákveðið var að ganga að 250 milljón evra vaxtaskiptasamning í september þar sem ríkissjóður greiðir breytilega 6 mánaða EURIBOR næstu 5 árin en fær greidda fasta 0,791% vexti. MC þeirra hafa sýnt að þetta var sú staða sem myndi lágmarka vaxtakostnað ríkissjóðs af erlenda láninu og því hafa þeir getað sleppt því að eyða þrotlausum tíma í punktspár vaxtaferla framtíðarinnar.

Líkt og kom fram hér í mars og maí er mögulegt að meta greiðslugetu skuldabréfaútgefenda miðað við óbreytta EBITDA. Raunhæfara er að varpa fram þúsundum ástanda heimsins með MC sem lánadrottnar eins og lífeyrissjóðir og bankar væntanlega gera. Þannig eru skilyrði fundin á lán sem lágmarka tapið af lánveitingunni.

Myndin lýsir MC dæmi; þúsund ferlar tveggja reglna í 250 viðskiptadaga. Annars vegar er fjárfest í vísitölusjóði á upphafsdegi og selt á lokadegi. Hins vegar er notast við svokallaða 30 daga hreyfanlegt meðaltal til að ákvarða sjálfvirkt hvenær á að kaupa, halda eða selja í sjóðnum. Dagleg ávöxtun ákvarðast af slembifalli sem er til einföldunar normaldreift með 5% staðalfrávik sem leyfir miklar dagssveiflur.

Líkt og áður sagði er ekki verið að giska á þróun framtíðarinnar, hér er verið að bera saman niðurstöður milli reglnanna miðað við þúsund ástönd. Áherslan er á mögulegt tap og því er sá hluti dreifingarinnar sýndur; vinstri hali dreifingar vísitölunnar er feitari og lokun hennar á tap lítil sem engin.