„AFHJÚPUN: Valdir stjórnendur Landsbankans eiga stærri eignarhlut í bankanum en aðrir starfsmenn.“ Þessi fullyrðing, sem birtist á Facebook-síðu Kjarnans á dögunum ásamt tengli að frétt þar að lútandi, hafði sterkt aðdráttarafl og vakti athygli mína.

Í fréttinni var fjallað um eign ákveðinna stjórnenda Landsbankans í bankanum, en hún var unnin upp úr hluthafalista sem Kjarninn hafði undir höndum. Það er alltaf gaman að sitja einn um hituna þegar kemur að krassandi upplýsingum, en í þetta skiptið var sá galli á gjöf Njarðar að upplýsingarnar voru að verulegu leyti aðgengilegar á vefsíðu Landsbankans löngu áður en Kjarninn birti fréttina.

Í ársreikningi Landsbankans í fyrra eru þrír nafngreindir stjórnendur sagðir eiga um 500 þúsund hluti í bankanum hver um sig. Frétt Kjarnans innihélt ekkert nýtt um eign þessara stjórnenda, að öðru leyti en að tilgreina það að eign hvers og eins stjórnenda væru nákvæmlega 528.732 hlutir. Í frétt Kjarnans segir að bankastjóri Landsbankans sé ekki á meðal tíu stærstu hluthafa hans. Það er einnig kýrljóst í ársreikningnum, sem hefur eins og áður segir verið aðgengilegur á vefsíðu bankans í marga mánuði. Frétt Kjarnans innihélt vissulega nýjar upplýsingar, svo sem hluthafalistann í heild sinni, en það er vafaatriði upp að hvaða marki uppslag fréttarinnar getur talist vera AFHJÚPUN.

Það er ekkert nýtt að fréttaveitur byrji Facebook-færslur á orðum eða orðasamböndum sem er ætlað að fá hárin til að rísa með því að hafa þau í hástöfum. NÝ FRÉTT er algengt forskeyti á Facebook-innleggjum hjá nokkrum íslenskum fréttastofum og vefmiðlum. Það að fjölmiðlar sjái sig knúna til að tilkynna lesendum það sérstaklega að fréttir séu NÝJAR er svolítið vandræðalegt sé litið til þess markmiðs flestra fjölmiðla að segja ekki sömu fréttina tvisvar.

Annars er það að frétta að Kjarninn dró til baka hluta fyrirsagnarinnar sem þessi pistill hefst á. Fyrst var "valdir stjórnendur Landsbankans" breytt í "stjórnendur Landsbankans", en síðan var orðið AFHJÚPUN tekið úr Facebook-innlegginu. Nú bíð ég bara eftir NÝRRI FRÉTT.