Enn skal fjallað um eignarhald fjölmiðla, því þar hafa átt sér stað ýmsar hræringar, athygli verðar. Bæði almennt um eigendavald, heið­ arlega blaðamennsku og hið lýð­ ræðislega hlutverk fjölmiðla, en einnig hins sérstaka, því eigendur fjölmiðla eru misjafnir. Stundum jafnvel of afskiptalausir, eins og nefnt var um Fréttatímann sáluga hér í síðustu viku.

Um örlög Fréttatímans og við­ skilnað Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi ritstjóra og útgefanda Fréttatímans, hefur ýmislegt verið sagt og skrifað á síðustu dögum og óþarfi að endurtaka hér. En lærdómurinn hlýtur að vera sá, að það sé góð ástæða fyrir því að fjölmiðlar séu tvískiptir, að ritstjórnin sé aðskilin frá rekstrinum að öðru leyti.

Það snýr ekki aðeins að því að eigendur eða auglýsingadeild geti hlutast til um umfjöllun með tilheyrandi trúnaðarrofi við lesendur. Heldur einnig því að sköpunargáfan á ritstjórninni rugli ekki reksturinn með tilheyrandi vanefndum og vanskilum.

***

Eins og fjölmiðlar hafa greint frá í nokkrum mæli hefur Gunnar Smári upp á síðkastið haft hugann við stofnun sósíalistaflokks. Fjölmiðlaumfjöllunin um hana varð honum tilefni þessarar athugasemdar:

Án þess að ég vilji hefja hér einhverja fjölmiðlarýni þá hefur það einkennt umfjöllun Morgunblaðsins um Sósíalistaflokkinn að blaðamenn þar hafa leitað heimilda og spurt mig um allskonar. Aðrir prent- og netmiðlar hafa hins vegar skrifað margt en aldrei þurft að spyrja mig neins. Ég hef talað við útvörpin og sjónvarpsstöðvarnar, en ekki aðra prent- eða netmiðla en Moggann. Annars staðar vinnur fólk sem ekki þarf að spyrja. Að sumu leyti er það slök blaðamennska byggð á vondum siðum, en að [öðru] leyti er þetta einkenni okkar tíma, afleiðing veikrar fjárhagslegrar stöðu fjölmiðla. Þeir birta sumir lítið annað en skoðanir höfunda á fréttum, segja í raun ekki margar slíkar.

Þetta eru athyglisverðar nótur frá þaulvönum blaðamanni. Það er að vísu eilítið kaldhæðið að sjálfur hefur Smári ekki verið laus við þetta, a.m.k. á tíma hans á Fréttatímanum og það fór nú eins og það fór.

***

Það er óneitanlega einkennilegt þegar það þarf að hrósa fjölmiðli sérstaklega fyrir að gera það, sem allir fjölmiðlar eiga að gera (vilji þeir teljast alvöru fréttamiðlar).

Nú eru ekki allir ánægðir með Morgunblaðið, sumum er í nöp við Davíð Oddsson, aðrir andsnúnir borgaralegum sjónarmið­ um blaðsins og þar fram eftir götum. Það er eins og það er, en af því að Moggi er alvöru, þá smitast þær skoðanir ekki yfir í fréttirnar. Ritstjórnarstefnan kann að hafa áhrif á fréttamatið, en ekki sjálfar fréttirnar.

Sitthvað hefur verið skrafað um eignarhald Morgunblaðsins, en það er ekki að sjá að það hafi áhrif á fréttir. Og einmitt vegna sjálfstæðis fréttaritstjórnarinnar og þeirra vinnubragða, sem þar eru viðhöfð, þá myndi slíkt sjást eins og skot. Þess vegna á enginn von á því meira verði fjallað um Todmobile eða Strokk Energy þó að Eyþórs Arnalds hafi keypt vænan hlut í blaðinu. Eða að ritstjórnarstefnan breytist nokkuð; hún hefur að breyttum breytanda verið hin sama í 104 ár.

***

Það er ekki sjálfgefið, menn eru misjafnir og jafnvel mishæfir til þess að vera fjölmiðlaeigendur.

Um daginn fréttist til dæmis að Róbert Wessman væri að koma úr skápnum sem helsti eigandi Pressunnar, en innan samstæð­ unnar eru m.a. fjölmiðlar eins og DV, vinsælir vefmiðlar, sjónvarpsstöðin ÍNN, fjölmörg héraðsfréttablöð og tímarit.

Lengi hefur verið hvíslað um að Róbert væri skuggaeigandi útgáfunnar, en auk hans hafa nokkrir aðrir bæst í hópinn og eitthvað um að verið sé að breyta kröfum í hlutafé. Staða fyrirtækisins er sögð í tæpara lagi, svo unnið er að frekari hlutafjáraukningu og hagræðingu í rekstri.

Gunnlaugur Árnason, fyrrverandi ritstjóri hér á Viðskiptablaðinu, er nýr stjórnarformaður Pressunnar og hann mun bera hitann og þungann af stefnumótun til framtíðar. Þetta er umfangsmikið fjölmiðlaveldi, fjárhagsstaðan flókin og rekstur fjölmiðla þungur sem endranær.

En er Róbert Wessman heppilegur fjölmiðlaeigandi? Afstaða hans til fjölmiðlunar, tilraunir til þess að þagga niður í þeim með málaferlum og þess háttar bendir ekki til þess að svo sé. Á móti kemur að ekki er víst að hann kæri sig endilega um að vera fjölmiðlaeigandi til frambúðar og sagt að þreifingar séu hafnar við Jón Ásgeir Jóhannesson um sameiningu við Fréttablaðið.

Er ekki Gunnar Smári á lausu?