*

föstudagur, 22. september 2017
Óðinn
22. maí 2012 12:25

Áherslur Samkeppniseftirlitsins

Forgangsröðun Samkeppniseftirlits er einkennileg. Augljós leið til að minnka fjármálakerfið er í gegnum tölvukerfi og bakvinnslu.

Axel Jón Fjeldsted

Það eru allir sammála um að hagræða þarf í bankakerfinu; fjármálafyrirtækin, eftirlitsaðilar og stjórnvöld. Samt gerist lítið sem ekkert í þeim efnum. Í skýrslu efnahagsog viðskiptaráðherra til Alþingis, Framtíðarskipan fjármálakerfisins, kemur fram að hlutdeild fjármálaog vátryggingastarfsemi í vergri landsframleiðslu hækkaði úr 4,5% árið 1998 í 10% árið 2008. Þrátt fyrir hrunið árið 2008 var hlutdeild fjármálaþjónustu enn 7,8% árið 2010.

* * *

Augljós leið til að minnka kostnað í fjármálakerfinu er í hvers konar tölvukerfum og bakvinnslu. Þess vegna olli það Óðni miklum vonbrigðum þegar hann las í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að nú standi til að leggja niður fyrirtækið Verdisi sem lengst af hét Arion verðbréfavarsla. Það vekur líka upp spurningar um hagsmunamat Samkeppniseftirlitsins að niðurstaða þess skuli leiða til að þetta fyrirtæki verði lagt niður. Í frétt Viðskiptablaðsins um að verið sé að leggja Verdisi niður kemur fram að Landsbankinn hafi ætlað að kaupa hlut í fyrirtækinu fyrir ári. Þá hafi staðið til að Verdis væri sérhæft fyrirtæki í eigu margra aðila og þjónustaði verðbréfamarkaðinn. Það hefði ekki einungis haft jákvæð áhrif á markaðinn með því að draga úr kostnaði, heldur ekki síður með því að lækka aðgangsþröskulda fyrir minni óháð verðbréfafyrirtæki á markaðinum.

* * *

Í nóvember í fyrra hafnaði Samkeppniseftirlitið samrunanum en þrátt fyrir að enn væri reynt að koma samrunanum í gegn gafst Landsbankinn upp á þrefinu í mars enda þurfti að bankinn að ákveða hvernig bakvinnslu yrði háttað hjá sér og gat ekki lengur skilið þá 20 starfsmenn sem hafa sinnt þessari þjónustu í bankanum eftir í óvissu. Arion banki hefur í kjölfarið ákveðið að sameina Verdisi bankanum. Þar með er kjörið tækifæri til hagræðingar á fjármálamarkaði farið forgörðum og möguleikar smærri aðila á markaðinum til að veita hinum stærri samkeppni þrengjast þar sem veruleg stærðarhagkvæmni er í rekstri bakvinnslu. Afleiðingin af því að bregðast við þessari hugsanlegu ógn sem Samkeppniseftirlitið taldi sig sjá kann því að vera að draga úr raunverulegri samkeppni á markaðinum, þar sem smærri aðilar gætu annað hvort þurft að leggja upp laupana eða sameinast.

* * *

Þessar efasemdir um hagsmunamat og forgangsröðun Samkeppniseftirlitsins leiðir hugann að öðru máli sem Óðni er hugleikið en það er bann við forverðmerkingu á kjötvöru. Forsaga þess máls er sú að frumniðurstaða rannsóknar Samkeppniseftirlitsins benti til að Bónus, sem er í eigu Haga, hafði orðið uppvís að verðsamráði ásamt sex kjötvinnslum. Þegar fyrirtækjunum var kynnt þessi niðurstaða leituðu þau öll og að sögn sitt í hvoru lagi til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir sátt. Fyrirtækin voru beitt stjórnvaldssekt og gripið var til aðgerða sem áttu að verða neytendum til hagsbóta. Ein þeirra aðgerða var hið stórfurðulega bann við forverðmerkingu á kjötvöru.

* * *

Ástæðan fyrir því að þetta bann er kallað stórfurðulegt er að yfirleitt er gott verðskyn talið helsta tæki neytenda í að veita kaupmönnum aðhald og forsenda verðskyns er auðvitað góðar verðmerkingar. Þessu til sönnunar má nefna að Neytendastofa sektar reglulega fyrirtæki fyrir ónógar verðmerkingar.

* * *

Nú er liðið rúmt ár síðan bannið tók gildi og því er hægt að fara að leggja mat á árangurinn af því. Til að skoða árangurinn af banninu er fyrst þróun vísitölu neysluverðs borin saman við þróun undirvísitölunnar „Búvörur án grænmetis“. Tímabilið sem er skoðað eru tvö ár áður en breytingin á sér stað 1. mars 2011 og frá þeim tíma til dagsins í dag. Báðar vísitölurnar fá gildið 100 í mars 2011 þegar breytingin á sér stað. Það sem þessar myndir sýna er að þegar gengi krónunnar veiktist eftir hrun náði verð landbúnaðarvöru ekki að fylgja vísitölu neysluverðs enda hafa innlendir kostnaðarþættir töluverð áhrif á landbúnaðarvöru. Það er ekkert náttúrulögmál að verð á landbúnaðarvöru eigi að fylgja vísitölu neysluverðs. Verð búvöru fer síðan að hækka meira en vísitala neysluverðs um leið og farið er að banna forverðmerkingu á kjötvöru. Hér er ekki fullyrt að um orsakasamband sé að ræða, en þetta hlýtur að vekja verulegar efasemdir um að bann við forverðmerkingum á kjötvörum hafi verið neytendum til hagsbóta.

* * *

Önnur leið til að meta áhrifin er að skoða verðmælingar Hagstofunnar á einstökum kjötafurðum sem fram fara fjórum sinnum ár hvert. Við notum mælinguna í febrúar þar sem hún er næst banninu á forverðmerkingu. Við skoðum tólf mánaða breytingar tvö ár áður en forverðmerkingar voru bannaðar og svo í eitt ár á eftir. Við skoðum bæði nafnverðsbreytingar og leiðrétt fyrir verðbólgu.

* * *

Niðurstaðan í þeim samanburði er algjörlega afgerandi ef horft er til nafnverðsbreytingu að verð hafi hækkað meira eftir að bannað var að forverðmerkja kjötvöru og niðurstaðan gefur sterka vísbendingu um það ef horft er til raunverðshækkana þótt þær niðurstöður séu ekki jafn afgerandi. Aftur skal það tekið fram að hér er ekki fullyrt að um orsakasamhengi sé að ræða en að öllu samanteknu hníga sterk rök að því að þessu leiðindabanni á forverðmerkingum, sem gerir neytendum erfiðara fyrir að átta sig á hvað maturinn kostar, verði aflétt.

* * *

Samkeppniseftirlitinu væri nær að beina sjónum að því hvort verið sé að blekkja neytendur með því að sprauta vatni í matvæli og selja sem um kjöt væri að ræða fremur en að banna að forverðmerkja t.d. vatnsbelgdu kjúklingabitana sem skreppa saman eins og rúsínur að lokinni matreiðslu þrátt fyrir að umbúðirnar beri með sér að um alvöru kjúkling sé að ræða.

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.