Nú er 24. nóvember, sem þýðir að það er nákvæmlega mánuður til jóla. Ég veit ekki með ykkur en jólaundirbúningurinn er hafinn á mínu heimili. Hann hófst sirka þegar fréttir bárust af því að Ikea-jólageitin, sem heldur til í hinni lágreistu byggð í Garðabæ, hefði enn einu sinni brunnið. Blessuð geitin gerir allt til að komast í pressuna. Ef enginn kveikir í henni kveikir hún bara í sér sjálf. Garðabær er jólabær Íslands, þar er Stjarnan, þar býr geitin og þar er fullt af jólasveinum.

„Ég boða yður mikinn fögnuð. Yður er í dag frelsari fæddur," heyrðist í Garðabæ á dögunum og buffið var lagt í jötu. Skömmu seinna kom hver vitringurinn á fætur öðrum að Bessastöðum að bera buffið, sem nú er tilbeðið um allt land, augum.

Undirbúningur jólanna hófst sem sagt fyrir nokkrum vikum á mínu heimili. Þetta byrjaði allt með stórri pöntun á Aliexpress. Nei, ég var ekki að kaupa gjafir handa náskyldum ættingjum og konuninni. Ég pantaði þær á Aliexpress fyrir löngu síðan. Núna var ég að panta dót í skóinn fyrir börnin. Ég var svolítið seinn að þessu og því alls ekki víst að kínverski pósturinn nái að koma þessu til mín áður en Stekkjastaur mætir á svæðið. Ég þrífst á svona spennu.

Ég pantaði líka skógjafir á Aliexpress í fyrra. Kínverjarnir sendu mér líklega svona 20 litlar gjafir og mig minnir að með sendingarkostnaði hafi ég borgað 500 kall fyrir þetta. Börnin léku sér með þessi vönduðu leikföng í svona tíu mínútur eða þangað til segullinn fór af leikfangaveiðistönginni og augun duttu af Tinky Winky og Dipsy. Þá fór þetta bara í ruslið og öllum var sama.

Skömmu eftir Aliexpress pöntunina fór ég í helgarferð með konunni. Þetta var í lok október. Í fríhöfninni hugsuðum við að sjálfsögðu til jólanna. Við keyptum sex mjög góðar rauðvínsflöskur með jólasteikinni og áramóta-hreindýrinu og helling af sælgæti. Nú tæpum mánuði síðar er ein flaska eftir af rauðvíninu og allt nammið búið nema flötu Mackintosh-karamellurnar í gula bréfinu. Það verður beljuvín og Mónu-konfekt á boðstólum í mínu heimili um jólin.

Þegar ég horfði konuna setja upp jólastjörnur í gluggana eitt kvöldið í vikunni ákvað ég að fá mér jólaöl. Nei, þetta var ekki fyrsta jólaölið sem ég fékk mér í ár. Við byrjuðum að kaupa jólaöl um leið og það kom í Bónus. Sama dag og það kom. Fjölskyldan fékk einmitt bréf frá Ölgerðinni á dögunum, þar sem okkur var þakkað fyrir að halda uppi sölu á jólaöli í byrjun nóvembermánaðar.

Þegar ég fékk mér sopa af jólaölinu hugsaði ég í eitt andartak hvort ég ætti ekki að senda jólakort í ár. Nei, það tekur því ekki. Ég sendi bara mjög almenna en samt persónulega kveðju til allra á Facebook.