*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Týr
1. júní 2018 17:38

Allir vinna

Það er mikilvægt að sveitarstjórnarmenn sýni auðmýkt. Auðmýkt gagnvart íbúum og pólitískum andstæðingum.

Haraldur Guðjónsson

Það er alltaf jafngaman að fylgjast með stjórnmálamönnum breytast í stjórnmálaskýrendur eftir kosningar. Þar keppast þeir við að útskýra og útskýra hvernig dómur kjósenda yfir þeim hafi verið sigur, ef ekki glæsilegur stórsigur, þá ótvíræður sigur, nú eða varnarsigur eða í hið minnsta móralskur sigur á einhvern hátt. Jafnvel þeir sem fengu harðasta skellinn og áttu erfitt með að berjast við tárin reyndu að útmála afhroðið sem nýja og skemmtilega áskorun.

Hvað má þá segja um alla auðmýktina og þakklætið? Af því öllu að dæma eru frambjóðendur svo lítillátar manneskjur að undrum sætir að einhverjum skuli hafa auðnast að draga þá í framboð. Öll tóku þau nú samt kosningu, þannig að jafnvel hógværðin var í hófsamara lagi.

Þrátt fyrir alla þessa vellandi auðmýkt og virðingu fyrir kjósendum hafa ótrúlega margir frambjóðendur samt í hinu orðinu getað útilokað samstarf við þennan eða hinn, hvort sem þar að baki býr nú skoðanaágreiningur, persónuleg óbeit eða eitthvað annað.

Nýkjörnir sveitarstjórnarmenn mættu hafa hugfast að þeir þurfa að sitja saman næstu fjögur ár, hvað sem tautar og raular. Þeir þurfa að rækja skyldur sínar við sveitungana, þeir þurfa að stýra sveitarfélaginu og reka það af myndugleik.

Það getur einfaldað málið – sérstaklega í stærri sveitarfélögunum – að hafa formlegt meirihlutasamstarf þar um, en það er ekki nauðsynlegt. Menn geta vel ráðið sér sveitarstjóra, bæjarstjóra eða borgarstjóra, kosið í ráð og nefndir, en að öðru leyti látið málin ráðast í sveitarstjórninni, þar sem fjárhagsáætlunin er auðvitað stóra málið. Það hefur hins vegar í för með sér losaralegri tök og kemur í veg fyrir heildstæða stefnumótun ef menn reyna bara að taka á hverju máli, án tillits til annarra þátta. Oft ávísun á „auðveldu“ ákvarðanirnar, sem yfirleitt eru einnig þær útlátasamari.

Í þeim efnum skiptir miklu máli að sveitarstjórnarmenn sýni auðmýkt. Auðmýkt gagnvart íbúunum, hógværð í meðferð fjármuna þeirra og virðingu við ólíka hagsmuni þeirra. Sem og í samstarfinu við andstæðingana. Þá vinna allir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim