*

mánudagur, 28. maí 2018
Andrés Magnússon
17. júní 2017 18:17

Almannaþegar

Hlutleysisskylda Ríkis­útvarpsins er mjög rík og ef það lætur misnota sig í aðdraganda almennra kosninga er fleira í húfi en staða þess og æra starfsmannanna.

Haraldur Guðjónsson

Bretar gengu að kjörborðinu fyrir viku og er óhætt að segja að úrslitin hafi komið mörgum að óvörum, þar á meðal þeim sem þetta skrifar. Talsvert hefur verið rætt um hvernig skoð­ anakönnuðum hafi skjöplast og fjölmiðlarnir verið engu nær um það, sem í vændum var.

Ekki þó síður hvernig flestir fjölmiðlar, ekki síst hið háheilaga ríkisútvarp í almannaþágu, BBC, beittu sér gegn Jeremy Corbyn. Er BBC þó ekki þekkt fyrir að gera íhaldinu neina greiða. Áróð­ ur þess var enda fremur angi af innanflokkserjum Verkamannaflokksins, þar sem miðjuöflin telja sósíalistann Corbyn hafa stolið frá sér flokknum.

Fróðlegt verður að fylgjast með eftirmálunum, en vafalítið verður gerð innanhúsrannsókn á því hvernig BBC spann þráð­ inn í kosningabaráttunni. Og eftir stendur auðvitað spurningin um það hversu viðeigandi sé, að ríkisfjölmiðlar flytji pólitískt hlaðnar fréttir.

***

Það má líka spyrja þeirrar spurningar norður við Dumbshaf.

Um fyrri helgi ritaði lögmað­urinn Einar S. Hálfdánarson athyglisverða grein í Morgunblaðið, þar sem hann lýsti sérkennilegum samskiptum sínum við yfirstjórn Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV).

Tilefni þeirra var að Einar, sem er hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi, telur að Helgi Seljan, umsjónarmaður Kastljóss, hafi gerst sekur um lögbrot skömmu fyrir alþingiskosningarnar liðið haust, þegar hann rifjaði upp margumrætt símtal milli Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra og þáverandi seðlabankastjóra, um þrautarvaral­ án til Kaupþings í bankahruninu miðju.

Sú frétt um átta ára gamla atburði var byggð á nokkurra ára gamalli vitnaskýrslu, sem heimildamaður Kastljóss fékk í hendur tveimur árum fyrr og RÚV varð áskynja um mánuði áður en greint var frá efni hennar, sem þó sætti engum stórkostlegum tíðindum. Enginn vafi er á að fréttin var til þess helst eða eins fallin að rifja bankahrunið upp fyrir kjósendum og hamra á því að þar hefðu tveir fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins leikið lykilhlutverk og milljarðar farið í súginn.

Að því leyti, sem þarna var frétt á ferð, vekur nokkra furðu hvers vegna Kastljósið beið með fréttina þar til rétt fyrir kosningar, frekar en að segja hana strax eða bíða með hana fram yfir kosningar.

Einar S. Hálfdánarson telur að þarna hafi Kastljós beinlínis verið notað til þess að kasta ranglega rýrð á tvo fyrrverandi formenn og forsætisráðherra Sjálfstæð­isflokksins. Gert var að höfuðatriði, að lítið hafi fengist upp í lánsupphæðina þegar Seðlabankinn seldi FIH-bankann í Danmörku, sem lagður hafði verið að veði. Einar bendir á að fyrir hafi legið að sú sala hafi farið fram án afskipta formannanna fyrrverandi og alfarið á ábyrgð stjórnenda Seðlabankans, en til þess að bæta gráu ofan á svart snarhækkaði verðmat bankans um leið og hann hafði verið seldur.

***

Þetta er allt verðugt rannsóknarefni, eins og raunar var vikið að í þessum dálki hinn 3. nóvember síðastliðinn. Og það er ekki aðeins eitthvert smekksatriði um fjölmiðla, því hér ræðir um mögulegt lögbrot. Hlutleysisskylda Ríkis­útvarpsins er mjög rík og ef það lætur misnota sig í aðdraganda almennra kosninga er fleira í húfi en staða þess og æra starfsmannanna.

Þess vegna eru viðbrögð stjórnar Ríkisútvarpsins sérstakt áhyggjuefni. Hún telur þessar ásakanir um lögbrot í raun ekki koma sér við, en fyrst viðkomandi yfirmönnum, fréttastjóra og útvarpsstjóra, þyki þetta ekki tiltökumál, þá sé það bara útrætt. Það gengur ekki. Alveg burtséð frá efni þessa tiltekna máls.

***

Sem rifjar auðvitað einnig upp annað mál í kosningabaráttunni, því aðeins kvöldinu áður hafði Kastljósið sent út viðtal við Evu Joly, sem ekki dró af sér um heimsósómann og hrunið, spillinguna og stjórnmálin og hvað Íslendingum væri hollast að kjósa.

Þetta viðtal var mjög óvenjulegt, ekki síst í aðdraganda kosninga. Ríkisútvarpið hefur lögbundna hlutleysisskyldu, en þarna kom erlendur stjórnmálamaður í við­ tal, kortér fyrir kosningar, til þess að hafa uppi margskonar ávirð­ ingar, ósannindi og áróður um leið og hún dásamaði eitt framboðið, en frú Joly var boðin til landsins af Pírötum til þess að taka þátt í kosningabaráttu þeirra.

Það er óskiljanlegt hvernig það stóðst vinnureglur Ríkisútvarpsins. Sennilega var það lögbrot og slík misnotkun á ríkisfjölmiðli með yfirburðastöðu á kostnað skattgreiðenda hlýtur að koma til skoðunar hjá kosningaeftirliti Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Stikkorð: RÚV Hlutleysi
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.