Í nóvember síðastliðnum fór ég til Suður-Kóreu og sótti þar fimmtu alþjóðlegu rannsóknaráðstefnu Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga (IPMA). Í Suður-Kóreu skoðaði ég Incheon-brúna sem tengir saman borgina Incheon og Yengjong eyju, þar sem alþjóðaflugvöllur er staðsettur. Brúin er 21 km að lengd, hún var tekin í notkun 2009 og þá hófst strax gríðarleg uppbygging á svæðinu.

Átta árum síðar hefur ótrúleg umbreyting átt sér stað. Suður-Kórea er mjög þéttbýl og margir skýjakljúfar hafa verið byggðir á þessu svæði á stuttum tíma. Hugsuðurinn á bakvið þetta brúarverkefni heitir Soo-hong Kim og er mikils metinn bakhjarl verkefnastjórnunar í Suður-Kóreu. Ég fékk tækifæri til að spjalla við hann og hann tjáði mér að þessi brú hefði upphaflega verið draumsýn afa hans, sem rak skipafélag sem annaðist ferjusiglingar á þessari leið. Það kom í hlut Soo-hong Kim að hrinda draumi afa síns í framkvæmd.

Við fyrstu sýn virðist sem Incheon-brúin sé tiltölulega einfalt framkvæmdaverkefni. Við skoðun sést að það hefur mjög marga fleti og við undirbúning og framkvæmd var kappkostað að gæta jafnvægis og passa hagsmuni fólksins sem býr í nærsamfélaginu, og huga að því að öllum umhverfissjónarmiðum væri fullnægt.

Í kynningu á þessu verkefni hefur það verið borið saman við hina 16 km löngu Eyrarsundsbrú á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Samanburðurinn er áhugaverður. Byggingartíminn var sambærilegur, kostnaðurinn við Incheon-brúna var 50% af kostnaði við Eyrarsundsbrúna, brúartollurinn er 3,5 evrur á Incheon brúnni en 35 evrur á Eyrarsundsbrúnni.

Áætlaður fjárhagslegur samfélagslegur ávinningur af Incheonbrúnni á 6 árum er 220 milljarðar evra, en sambærileg tala fyrir Eyrarsundsbrúnna er 11 milljarðar evra á 10 árum. Í spjalli við Soo-hong Kim kom fram að brúartollurinn mun falla niður í náinni framtíð. Fjárfestar fá ásættanlega ávöxtun í gegnum þátttöku í hinni gríðarlegu uppbyggingu á svæðum sem hafa blómstrað eftir að brúin var tekin í notkun.

En hvað getum við lært af þessu á Fróni? Ekki var laust við að hugurinn hvarflaði að Sundabraut sem verið hefur lengi í umræðunni. Ég veit ekki í hvaða farvegi það verkefni er nú um stundir, né hve margar skýrslur hafa verið skrifaðar og hve miklu hefur verið varið í fýsileikaathuganir og forhönnun. En ég trúi því að Sundabrautin sé gott verkefni sem gæti haft mikil áhrif á Íslandi, rétt eins og Incheon-brúin hafði í Suður Kóreu.

Vissulega er um að ræða stóra og dýra framkvæmd en hvað með öll möguleg jákvæð áhrif Sundabrautar? Hvað með þjóðhagslegan sparnað af styttingu leiða og öll sóknarfærin sem skapast þegar til verður verðmætt byggingarland við brúarsporðinn, álag minnkar af Vesturlandsvegi og ný tækifæri opnast til uppbyggingar milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og allt upp á Kjalarnes? Hvernig væri að taka höndum saman og horfa til framtíðar?

Framsýni frumkvöðullinn Soo-hong Kim kvaðst meira en til í að aðstoða okkur með ráðum og dáð. Fyrsta skrefið væri kannski að fá hann til landsins til að segja okkur frá því hvernig draumurinn um Incheon-brúna varð að veruleika á skömmum tíma, og þeim gríðarlegu áhrifum sem brúin hefur haft í Suður-Kóreu?

Höfundur er prófessor og forstöðumaður MPM náms Háskólans í Reykjavík.