Í sömu viku og kennarar gengu til atkvæða um nýjan kjarasamning rétt fyrir jól birti Viðskiptablaðið forsíðufrétt um að launakostnaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefði hækkað  um 28% milli ára. Viku síðar birtist í blaðinu skoðanapistill undir fyrirsögninni „Kennarar falla á prófinu" þar sem rýnt var í niðurstöður nýrrar PISA-könnunar og tölur frá Hagstofunni.

Ragnar Þór Pétursson heimspekingur og kennari gerði þetta tvennt að umfjöllunarefni í bloggi á vef Stundarinnar um miðjan desember.

„Það getur verið erfitt að þjóna tveimur herrum," skrifaði Ragnar Þór. „Um daginn steig Viðskiptablaðið feilspor þegar það setti kjarakröfur kennara í nýtt samhengi með stríðsfrétt um stórkostlegar kjarabætur OR. Í kappi sínu við að freta á vinstri mennina í stjórn Reykjavíkurborgar blés blaðið óvænt vindi í segl kennara. Ég þykist vita að í baklandi blaðsins hafi ekki verið nema miðlungs ánægja með blaðið eftir þetta. Þess vegna kom það mér ekki á óvart að í síðasta blaði birtist löng og ítarleg loftárás á kennara, skreytt með myndritum."

Fyrst ber að nefna að 28% hækkun launakostnaðar á níu mánuðum hjá opinberu fyrirtæki er frétt hvort sem vinstri eða hægri menn stjórna borginni. Kjaramál kennara settu síðan fréttina í enn víðara samhengi og ritstjórn Viðskiptablaðsins var fullkomlega meðvituð um það.

Um meinta pólitíska slagsíðu í fréttaskrifum er bara eitt að segja. Ef ég upplifi það einhvern tímann að annarlegar hvatir stjórni skrifum mínum þá ætla að ég hætta í blaðamennsku.

Þessi skrif Ragnars Þórs endurspegla reyndar ágætlega tíðarandann. Fólk sér pólitíkina í hverju horni og hikar ekki við að vega að æru blaðamanna. Það sem truflar suma, ekki bara Ragnar Þór, eru nafnlausir leiðarar og skoðanapistlar. Fólk fellur í þá gryfju að gera ekki greinarmun á milli skoðanadálka og frétta.

Ef Ragnar hefði einbeitt sér alfarið að því að gagnrýna pistilinn og sleppt þessari tengingu við fréttaskrifin þá hefði ég að sjálfsögðu ekki kippt mér neitt upp við það enda ekkert nema sjálfsagt. Það hefði hins vegar eyðilagt þessa bröttu og lesvænu byrjun á hans pistli. Ég þykist vita að Ragnar Þór sé ekki vitlaus maður og því læðist að mér sá grunur að hann hafi skrifað þessa byrjun gegn betri vitund. Þar með er hann í raun sjálfur sekur um það sem hann sakar mig  um — að láta annarlegar hvatir stjórna skrifum sínum.

Fjölmiðlapistill sem birtist í Viðskiptablaðinu 19. janúar 2017.