Eins og alþekkt er hefur ferðaþjónusta blásið út á Íslandi á undanförnum árum. Vöxturinn hefur verið hraður í takt við aukna eftirspurn og upp hefur sprottið fjöldi fyrirtækja sem gera út á sömu mið. Það hefur verið lenska aðila í þessum geira atvinnulífsins að markaðssetja þjónustu sína undir merkjum sem gera í raun lítið annað en lýsa þeirri þjónustu sem veitt er – yfirleitt á enskri tungu.

Auðkenni í líkingu við Nordic Adventures, Aurora Excursions, Tours in Iceland o.s.frv. hafa verið ríkjandi í ferðaþjónustu hérlendis. Slík lýsandi orðmerki eru hins vegar þeim annmörkum háð að almennt getur enginn öðlast einkarétt til notkunar þeirra í atvinnustarfsemi sinni.

Þannig er það skilyrði skráningar vörumerkis að merkið sé til þess fallið að greina þjónustu merkiseiganda frá þjónustu annarra. Merki, sem eingöngu eða aðeins með smávægilegum breytingum eða viðbótum gefa til kynna m.a. tegund þjónustunnar hefur ekki nægjanlegt sérkenni í skilningi vörumerkjaréttar og fást ekki skráð sem slík.

Þetta er rökrétt því einkaréttur eins takmarkar athafnafrelsi annarra til þess að lýsa þjónustu sinni með eðlilegum hætti. Umsóknum um skráningu lýsandi orðmerkja er því jafnan hafnað hjá Einkaleyfastofunni. Myndræn útfærsla slíkra merkja getur þó ljáð þeim fullnægjandi sérkenni og skráningarhæfi, en þess er rétt að geta að þann 15. september 2017 voru tekin upp ný viðmið þar sem ríkari kröfur en fyrr eru gerðar til stílfærslu vörumerkja með lýsandi orðhluta.

Einfaldar myndir af andlagi þjónustunnar sem veitt er, s.s. af Íslandi, jöklum eða norðurljósum, myndu t.d. almennt ekki veita orð- og myndmerki með lýsandi orðhluta fullnægjandi sérkenni. En burtséð frá skilyrðum vörumerkjaréttarins þá hlýtur það að vera keppikefli fyrirtækja í ferðaþjónustu að skera sig úr fjöldanum þegar þrengir að og þar getur mótun sterks vörumerkis sannarlega skipt sköpum.

Höfundur er sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja.