HB Grandi tilkynnti í vikunni að félagið þyrfti líklega að segja upp 93 manns, í botnfiskvinnslu þeirra á Akranesi, af þeim 270 sem starfa hjá félaginu í bænum. Það er auð- vitað ömurlegt, en vilji menn líta á björtu hliðarnar þá má benda á að atvinnuleysi er aðeins 2,2% á Akranesi og 2,4% á landinu öllu. Það þýðir að allir sem vilja og geta munu fá störf annars staðar, þótt margir muni eflaust þurfa að sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið.

Réttlætisriddarar samfélagsmiðlanna hafa verið að setja þessar fyrirhuguðu aðgerðir í samhengi við arðgreiðslur fyrirtækisins. Það verður auðvitað enginn arður greiddur af starfsemi sem rekin er með tapi. Arðsvon dregur að sér fé í fjárfestingar sem skapar störf. Arður skapar þannig störf, en eyðir þeim ekki, og er þar að auki afleiðing af arðsemi rekstrar í fortíð, en ekki framtíð.

Krafa er um einhvers konar inngrip af hálfu hins opinbera. Það borgar sig að forðast sértækar aðgerðir. Slíkir plástrar leysa ekki undirliggjandi vanda. Best væri að ríkið myndi með almennum aðgerðum bæta rekstrarumhverfi sjávarútvegsins svo hann sé betur í stakk búinn til að fjölga störfum og viðhalda atvinnuöryggi.

Fyrsta skrefið væri að lækka sérskatt á greinina í formi auðlindagjalda. Í öðru lagi mætti eyða pólitískri óvissu í tengslum við greinina. Það dregur úr vilja til fjárfestinga í greininni ef stjórnmálamenn eru sífellt að hóta því að greinin verði þjóðnýtt, hvort sem menn kalla það uppboðsleið eða fyrningarleið.

Í þriðja lagi verðum við svo að taka upp mynt sem er ekki svona óstöðug og er ekki með svona gríðarlegu háu vaxtastigi. Hið minnsta verður að finna leiðir til að ná meiri stöðugleika og lægri vöxtum með þá mynt sem við notum í dag, á meðan við fáum ekki að nota aðra betri.